Langafi prakkari í leikferð um austurland

langafi prakkari 1Dagana 11. – 15. maí verður Möguleikhúsið á ferð um suður- og austurland með leiksýninguna Langafi prakkari og verður sýnt í nokkrum grunn- og leikskólum. Sýningar verða á Raufarhöfn, Þórshöfn, Bakkafirði, Vopnafirði, Seyðisfirði, Eskifirði, Neskaupstað, Djúpavogi, Höfn og í Hofgarði.Bækur Sigrúnar Eldjárns um Langafa prakkara hafa um árabil notið mikilla vinsælda meðal yngstu lesendanna. Í þessari leikgerð er stuðst við bækurnar Langafi drullumallar og Langafi prakkari. Leikritið var fyrst sýnt árið 1999 og urðu sýningar þá rúmlega 150 talsins. Langafi prakkari sneri aftur í janúarbyrjun 2007 og hefur enn sem fyrr notið mikilla vinsælda.  Sýningar eru nú orðnar rúmlega 230 talsins.  Í leikritinu segir frá lítilli stúlku, Önnu, og langafa hennar. Þó langafi sé blindur og gamall er hann alltaf tilbúinn að taka þátt í einhverjum skemmtilegum uppátækjum með Önnu litlu. Hann passar hana alltaf á daginn þegar pabbi hennar og mamma eru í vinnunni. Þá hefur hann nægan tíma til að sinna henni og þau gera ýmislegt skemmtilegt saman. Þau skoða mannlífið, baka drullukökur, veiða langömmur og fleira. Þetta er enginn venjulegur langafi …   Langafi og Anna eru leikin af þeim Pétri Eggerz og Aino Freyju Järvelä, leikstjóri og höfundur leikgerðar er Pétur Eggerz, búninga gerir Katrín Þorvaldsdóttir, leikmynd er eftir leikhópinn og tónlist er gerði Vilhjálmur Guðjónsson.

Skráning hafin á sumarnámskeið Möguleikhússins

20.júní011Skráning er nú hafin á hið vinsæla sumarnámskeið Möguleikhússins.

Frá árinu 1995 hefur Möguleikhúsið staðið fyrir leikhúsnámskeiðum fyrir börn á sumrin með dyggum stuðningi frá Íþrótta- og tómstundaráði Reykjavíkur. Um er að ræða þriggja vikna námskeið þar sem unnið er með börnunum fimm tíma á dag fimm daga vikunnar. Tuttugu börn komast á hvert námskeið. Á námskeiðunum er unnið með flest þau atriði sem tengjast hefðbundinni leikshúsuppsetningu. Meðal þess sem fengist er við má nefna; gerð handrits, æfingar, leikmynd og búningar, lýsing ofl. Þó að vinnan fari að mestu leyti fram innan dyra er einnig reynt að brjóta upp daginn með því að fara út í guðs græna náttúruna, ef veður leyfir. Allir þessir þættir eru síðan nýttir til að vinna leiksýningu frá grunni, sem sýnd er í lok námskeiðsins. Skapast hefur sú hefð að sýningin sé sýnd a.m.k. tvisvar, annars vegar fyrir börn á nokkrum leikjanámskeiðum á vegum Íþrótta- og tómstundaráðs Reykjavíkur og hins vegar fyrir aðstandendur barnanna. Leiðbeinendur á námskeiðunum eru leikhúslistamenn sem hafa mikla reynslu af að vinna í barnaleikhúsi auk aðstoðarmanna.

Möguleikhúsið efnir nú, fimmtánda árið í röð, til leikhúsnámskeiðsins „Leikhús möguleikanna“. Haldið verður eitt námskeið fyrir börn á aldrinum 9–12 ára og stendur það í þrjár vikur. Námskeiðið fer að þessu sinni fram í Menningarmiðstöðinni Gerðubergi. Námskeiðinu lýkur með leiksýningu, sem sýnd er í Gerðubergi í lok námskeiðsins.
Námskeiðið hefst 8. júní og lýkur 26. júní. Unnið verður frá kl. 9.00–14.00. Hámarksfjöldi þátttakenda er 20. Þátttökugjald er 40 .000 kr. Greiða þarf 10.000 kr. staðfestingargjald við skráningu.
Skráning fer fram í síma 562 2669 og á moguleikhusid@moguleikhusid.is

Síðustu sýningar á Alla Nalla í Gerðubergi

Alli Nalli og tungliðSíðustu tvær sýningar á Alla Nalla og tunglinu í Menningarmiðstöðinni Gerðubergi núna í vor verða sunnudaginn 19. apríl kl. 14 og sumardaginn fyrsta, 23. apríl, kl. 14. Að því loknu taka við annir hjá leikhóp Möguleikhússins vegna leikferða ofl.

Nú er því um að gera fyrir þá sem ekki hafa enn komið að drífa sig með börnin.
Sýningin hlaut fjórar stjörnur hjá gagnrýnanda Fréttablaðsins.
Miðaverð er kr. 1.500, miðapantanir í s. 5622669 og á midi.is


Sumarnámskeið Möguleikhússins verður haldið í Gerðubergi

Hópurinn á námskeiðinu 2008 Frá árinu 1995 hefur Möguleikhúsið staðið fyrir sumarnámskeiðum fyrir börn á aldrinum 9 - 12 ára. Námskeiðin voru haldin í Möguleikhúsinu við Hlemm, en eins og kunnugt er þurfti Möguleikhúsið að gefa frá sér það húsnæði á síðasta ári vegna minnkandi stuðnings opinberra aðila. Í framhaldi af því var um hríð óvíst um framhald þessara vinsælu námskeiða. Nú hefur Möguleikhúsið komist að samkomulagi við Menningarmiðstöðina Gerðuberg í Breiðholti um að námskeiðið verði haldið þar í sumar. Námskeiðið verður með svipuðu sniði og verið hefur, hefst mánudaginn 8. júní og lýkur föstudaginn 26. júní. Skráning á námskeiðið hefst 27. apríl en nánari upplýsingar um námskeiðið má finna á slóðinni http://www.moguleikhusid.is/moguleikhusid/sumarnamskeid/

Alþjóða leiklistardagurinn 27. mars

Hér á eftir fylgir ávarp Sigrúnar Eddu Björnsdóttur leikkonu í tilefni af alþjóða leiklistardeginum 27. mars.

Sigrún EddaÁgætu leikhúsunnendur.

Hvers vegna viljum við hafa leikhús? Þetta furðulega fyrirbæri sem þó hefur fylgt manninum frá ómunatíð. Í dag, þann 27. mars er Alþjóða leiklistardagurinn. Hann er haldinn hátíðlegur um heim allan í þeim tilgangi að vekja athygli á leiklistinni og mikilvægi hennar í mannlegu samfélagi. Því er vert að staldra við og velta ofangreindri spurningu fyrir sér.

Það fallegasta sem sagt hefur verið um leiklistina og hægt er að taka undir af heilum hug er að löngun mannsins til að leika, sé sprottin af þörf hans til tengjast því sem býr innra með öllum mönnum, þessu innra ljósi sem við búum öll yfir og finnum svo sterkt fyrir. Það er vegna þessarar tengingar, þessarar samkenndar sem við getum skapað nýjan veruleika. Veruleika leikhússins. Fátt er eins dýrmætt fyrir leikara og að finna þessa tengingu og taka þátt í leiksýningu sem á erindi við áhorfandann og hreyfir við honum, hvort sem er í gleði eða sorg. Við mannfólkið erum þelið sem draumar spinnast úr, þessir dýrmætu draumar sem eru eins og gullþráður í því margbrotna mynstri sem tilvist okkar mótast af. Þessi þráður kemur fram í skáldskapnum, myndmálinu, tónlistinni og hreyfingunni. Ekkert er leiklistinni óviðkomandi. Hún á að endurspegla tilvist okkar, sameina upplifun okkar og stuðla að samkennd og skilningi meðal manna.

Í viðleitni sinni til að tjá og spegla veruleikann leitar leiklistin að mismunandi formum. Þess vegna er engin ein tegund leiklistar mikilvægari en önnur.

Til er gamanleikur, harmleikur, grímuleikur, látbragðsleikur, brúðuleikur, einleikur, trúðleikur. Götuleikhús, kaffileikhús, pólitískt leikhús, stofuleikhús, barnaleikhús, vasaleikhús, útileikhús, skuggaleikhús, lítið leikhús, stórt leikhús, útvarpsleikhús, meira að segja ósýnilegt leikhús. Og áhorfendur hafa dregist að leikhúsinu í gegnum aldirnar, alveg eins og þið gerið hér í kvöld. Hvers vegna? Jú, við viljum verða fyrir áhrifum. Við viljum hlæja saman, gráta saman, láta hreyfa við hugsunum okkar og hugmyndum. Og í síbreytilegum heimi þar sem hugmyndafræði og áherslur geta kollsteypst á einni nóttu, eins og við þekkjum svo vel einmitt nú, á leikhúsið brýnt erindi. Það er ekki síst á þannig tímum sem við höfum þörf fyrir leikhús og því ber leikhúsið mikla ábyrgð. Leiklist breytir kannski ekki heiminum en við getum öll verið sammála um að í leikhúsi búi leyndur sannleikur sem hjálpar okkur í þeirri viðleitni að skilja líf okkar og viljann til að búa til betri heim. 


Alli Nalli og tunglið í Gerðubergi á laugardag

Alli Nalli og tungliðMöguleikhúsið sýnir barnaleikritið Alli Nalli og tunglið í
Menningarmiðstöðinni Gerðubergi laugardaginn 28. mars kl. 14:00.

Bókin um Alla Nalla og tunglið kom fyrst út árið 1959. Það var fyrsta barnabókin sem Vilborg Dagbjartsdóttir skrifaði og jafnframt fyrsta bókin sem kom út eftir hana. Það er því vel við hæfi að fagna fimmtíu ára höfunarafmæli hennar með sviðsetningu á þessu ástsæla verki. Síðar komu einnig út barnabækurnar Sögur af Alla Nalla og Labbi pabbakútur, en það eru einkum þessar þrjár sem leiksýningin byggir á.

Elísabet Brekkan skrifaði leikdóm í Fréttablaðið og gaf sýningunni
fjórar stjörnur. Hún segir m.a.;
"Sýningin var litskrúðug og skapandi, það var örvandi sköpun sem
varð til meðan börnin horfðu á (...) Þessi sýning er mjög vel
sniðin fyrir alyngstu áhorfendurna frá svona tveggja ára aldri og upp
úr. Notkun litanna í uppfærslunni, bæði í búningunum og myndunum sem
upp var brugðið var sérstaklega skemmtileg og skýr."

Sýningin er ætluð áhorfendum á aldrinum 1 til 8 ára og tekur 45 mínútur í flutningi.
Miðaverð er kr. 1.500 og tekið er á
móti pöntunum í s. 5622669 og á moguleikhusid@moguleikhusid.is
Nánari upplýsingar um sýninguna er að finna á heimasíðu Möguleikhússins www.moguleikhusid.is

20. mars – Alþjóðlegur leikhúsdagur barna

Áhorfendur á sýningu MöguleikhússinsFrá árinu 2001 hefur 20. mars verið haldinn sem alþjóðlegur leikhúsdagur barna og ungmenna um heim allan og verið fagnað af leikhúsfólki sem helgar starf sitt leiksýningum fyrir börn og unglinga. Megintilgangur alþjólega barnaleikhúsdagsins er að vekja athygli almennings á því starfi sem fram fer innan leikhúsanna fyrir börn og unglinga og gera veg barnaleikhússins sem mestan. 

Í tilefni af alþjóðlegum leikhúsdegi barna í ár hefur Þórarinn Eldjárn, að beiðni Samtaka um barna- og unglingaleikhús á Íslandi, samið eftirfarandi ávarp.

Ávarp á alþjóðlegum leikhúsdegi barna
20. mars 2009
eftir Þórarin Eldjárn


Leikhúsmiði......

og leikarar uppi á sviði.

Þar sem allir geta orðið það sem þeir vilja.

Þau æpa, hvísla, syngja, tala, þylja....

eitthvað sem allir krakkar skilja.

Fullorðnir verða börn og börnin gömul um stund

Breytist einn í kött og annar í hund.

Leikararnir skemmta, fræða, sýna, kanna, kenna...........

Kæti, læti, tryllingur og spenna.

Stundum er verið að reyna að ráða gátur

svo reka sumir upp taugaveiklaðan hlátur

og beint á eftir byrjar í salnum grátur.

Samt er alveg ótrúlega gaman

hvernig allir geta setið þarna saman

og horft á hvað leikararnir eru snarir í snúningum

og í sniðugum búningum.....

Þess vegna er alveg full ástæða til að þakka

að þessi dagur í dag skuli vera frátekinn sem alþjóðlegur leikhúsdagur krakka.


Alli Nalli fær fjórar stjörnur

Alli Nalli og tungliðFrumsýningin á Alla Nalla og tunglinu, sunnudaginn 8. mars, gekk ljómandi vel og óhætt að segja að viðtökurnar hafi verið góðar.
Elísabet Brekkan skrifaði leikdóm í Fréttablaðið og gaf sýningunni fjórar stjörnur. Hún segir m.a.;
"Sýningin var litskrúðug og skapandi, það var örvandi sköpun sem varð til meðan börnin horfðu á (...) Þessi sýning er mjög vel sniðin fyrir alyngstu áhorfendurna frá svona tveggja ára aldri og upp úr. Notkun litanna í uppfærslunni, bæði í búningunum og myndunum sem upp var brugðið var sérstaklega skemmtileg og skýr."
Næsta sýning á Alla Nalla og tunglinu verður í Gerðubergi laugardaginn 28. mars kl. 14:00, miðaverð er kr. 1.500 og tekið er á móti pöntunum í s. 5622669 og á moguleikhusid@moguleikhusid.is

Alli Nalli hlýtur góðar móttökur

Leikkonurnar Alda og Anna Brynja ásamt Vilborgu Dagbjartsdóttur í lok frumsýningarFrumsýningunni á Alla Nalla og tunglinu var vel tekið af troðfullum sal áhorfenda í Gerðubergi sunnudaginn 8. mars. Meðal áhorfenda var Vilborg Dagbjartsdóttir sem einmitt skrifaði söguna um Alla Nalla og tunglið fyrir 50 árum síðan. Fögnuðu áhorfendur henni sérstaklega í leikslok. Alli Nalli ver'ur næst á ferðinni í Gerðubegi sunnudaginn 15. mars kl. 14:00, en miðapantanir eru í s. 5622669 og á moguleikhusid@moguleikhusid.is Einnig er rétt að benda á að leik- og grunnskólar geta fengið sýninguna í heimsókn.

Alli Nalli og tunglið frumsýnt á sunnudaginn!

ALLI NALLI OG TUNGLIÐ

Leikrit eftir Pétur Eggerz

byggt á verkum Vilborgar Dagbjartsdóttur

Sunnudaginn 8. mars kl. 14:00 frumsýnir Möguleikhúsið nýtt íslenskt barnaleikrit, Alli Nalli og tunglið,  í Menningarmiðstöðinni Gerðubergi Pössunarpíurnar Ólína og Lína eru mættar til að stytta ykkur stundir næstu þrjá stundarfjórðungana. Þær vita fátt betra en að vera með börnum, fara með þeim í leiki og gera annað skemmtilegt. Þær hafa líka ýmsar sögur að segja af honum Alla Nalla, sem var fyrsti krakkinn sem þær pössuðu. Þó Alli Nalli væri oftast góður og þægur átti hann stundum til að vera pínulítið óþekkur eins og aðrir krakkar. Eins og til dæmis þegar hann harðneitaði að borða grautinn sinn á kvöldin. Þá gaf mamma hans tunglinu grautinn og tunglið stækkaði og stækkaði ... 

Bókin um Alla Nalla og tunglið kom fyrst út árið 1959. Það var fyrsta barnabókin sem Vilborg Dagbjartsdóttir skrifaði og jafnframt fyrsta bókin sem kom út eftir hana. Það er því vel við hæfi að fagna fimmtíu ára höfunarafmæli hennar með sviðsetningu á þessu ástsæla verki. Síðar komu einnig út barnabækurnar Sögur af Alla Nalla og Labbi pabbakútur, en það eru einkum þessar þrjár sem leiksýningin byggir á.  

Frumsýningin markar einnig upphafið á samstarfi Menningarmiðstöðvarinnar Gerðubergs og Möguleikhússins. 

Sýningin er ætluð áhorfendum á aldrinum 1 til 8 ára og tekur 45 mínútur í flutningi. 

Leikstjóri er Pétur Eggerz, tónlist er eftir Kristján Guðjónsson en leikmynd og búningar eftir Messíönu Tómasdóttur.  Leikarar eru Alda Arnardóttir og Anna Brynja Baldursdóttir.

Önnur sýning á Alla Nalla og tunglinu verður í Gerðubergi sunnudaginn 15. mars kl. 14:00.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband