Alli Nalli tekur á sig mynd

Alli Nalli og tunglið Það er mikið fjör á æfingum á Alla Nalla og tunglinu þessa dagana og sýningin óðum að taka á sig mynd. Eins og sjá má á myndinni hér til hliðar eru leikmynd og búningar Messíönu Tómasdóttur með líflegasta móti og gaman að sjá söguna taka á sig mynd. Þá er einnig óhætt að segja að sönglög Kristjáns Guðjónssonar lofi góðu, en leikararnir söngla þau nú fyrir munni sér í tíma og ótíma. Eins og áður hefur komið fram verður frumsýning í menningarmiðstöðinni Gerðubergi 8. mars.

Möguleikhúsið hlýtur ekki náð fyrir augum leiklistarráðs

Styrkþegar leiklistarráðsNýlega var tilkynnt hvaða sjálfstætt starfandi leikhús hljóta styrk frá menntamálaráðuneyti samkvæmt tilmælum leiklistarráðs. Annað árið í röð verðum við í Möguleikhúsinu að sætta okkur við að fá engan stuðning, þrátt fyrir öflugt starf og gríðarlega góðar undirtektir áhorfenda um land allt. Þá vekur athygli hversu lítils leiksýningar fyrir börn eru metnar er að úthlutun kemur, en af 66 milljónum króna sem úthlutað var voru aðeins 6,7 milljónir sérstaklega ætlaðar til uppsetninga á leikritum fyrir börn.

Það er því ljóst að róðurinn þyngist í rekstrinum á komandi mánuðum og draga verður verulega úr þeirri starfsemi sem fyrir huguð var á næstu misserum. Það er þó huggun harmi gegn að enn er í gildi starfssamningur milli leikhússins og Reykjavíkurborgar sem gerir okkur kleift að standa við áætlanir um frumsýningu á leikritinu Alli Nalli og tunglið, sem verið er að æfa um þessar mundir. Hvað framtíðin ber í skauti sér er öldungis óvíst, en samningurinn við Reykjavíkurborg rennur út nú í árslok. Hvað sem öllu líður er nokkuð ljóst að ekki er hægt að reikna með stuðningi menntamálaráðuneytis við rekstur barnaleikhúss á Íslandi, það teljum við í Möguleikhúsinu fullreynt eftir tæplega nítján ára starf.

Við í Möguleikhúsinu óskum þeim sjálfstæðu atvinnuleikhúsum sem stuðning hafa hlotið til starfsemi til hamingju með sinn hlut.


Æfingar standa yfir á Alla Nalla

Æfing á Alla NallaÆfingar standa um þessar mundir yfir hjá okkur í Möguleikhúsinu á leiksýningunni Alli Nalli og tunglið, sem byggir á sögum Vilborgar Dagbjartsdóttur. Öllu miðar þessu í rétta átt og frumsýning er áætluð í menningarmiðstöðinni Gerðubergi sunnudaginn 8. mars, en að því loknu verður ferðast með sýninguna í leik- og grunnskóla. Nokkuð er farið að spyrjast fyrir um Alla Nalla nú þegar og búið að bóka sýningar í leik- og grunnskólum. Það eru þær Alda Arnardóttir og Anna Brynja Baldursdóttir sem leika í sýningunni, sem er ætluð áhorfendum að 8 ára aldri.

Möguleikhúsið í Stundinni okkar

Stundin okkarMöguleikhúsið var í sviðsljósinu í Stundinni okkar sunnudaginn 11. janúar. Aðalgestir þáttarins voru þau Alda Arnardóttir og Pétur Eggerz, leikarar og aðstandendur Möguleikhússins. Auk þess að vera þar í spjalli við stjórnandann, Björgvin Franz Gíslason, brugðu þau sér í hlutverk tröllabarnanna Þusu og Þrasa. Þá brá Sigurður Hlöðver sér einnig í heimsókn í Möguleikhúsið ásamt ömmu sinni, sem kann að vísu ekki alveg á hvernig best er að haga sér í leikhúsinu. Þátturinn verður endursýndur fimmtudaginn 15. janúar, en einnig má sjá hann á slóðinni http://dagskra.ruv.is/sjonvarpid/4444785/2009/01/11/

Æfingar hafnar á Alla Nalla

Æfing á Alla NallaNú erum við í Möguleikhúsinu óðum að jafna okkur eftir jólatörnina, en í desember vorum við með fjölda sýninga á leikritunum Hvar er Stekkjarstaur? og Aðventu, auk þess að hafa umsjón með heimsóknum íslensku jólasveimanna í Þjóðminjasafnið. En nýtt ár hefst með nýjum verkefnum og æfingar eru nú hafnar á leikritinu um Alla Nalla og tunglið. Hér er um að ræða sýningu fyrir yngstu áhorfendurna sem byggir á bráðskemmtilegum og sívinsælum sögum Vilborgar Dagbjartsdóttur. Það eru leikkonurnar Anna Brynja Baldursdóttir og Alda Arnardóttir sem leika í sýningunni, leikstjóri og höfundur handrits er Pétur Eggerz, Messíana Tómasdóttir gerir leikmynd og búninga en Kristján Guðjónsson er höfundur tónlistar. Frumsýning er áætluð í mars, en sýningin verður ferðasýning sem einkum verður farið með í heimsóknir í leikskóla landsins.


Kertasníkir hinn þrettándi

KertasníkirÞá er síðasti jólasveinninn, hann Kertasníkir, kominn til byggða. Hann kíkti í heimsókn á Þjóðminjasafninu og hitti þar fyrir stóran hóp prúðbúinna barna sem færðu honum fullt af kertum að gjöf. Það gladdi Kertasníki mjög, þótt honum þyki vaxkerti nútímans ekki jafnast á við gömlu góðu tólgarkertin. Þau voru nefnilega svo góð á bragðið. Það er hinsvegar ekkert varið í að bíta í vaxkertin. Þess vegna tekur Kertasníkir þau með sér í hellinn sinn þar sem hann kveikir á þeim eftir jólin.

Möguleikhúsið þakkar Kertasníki og bræðrum hans fyrir komuna núna í desember og Þjóðminjasafninu fyrir ánægjulegt samstarf.

GLEÐILEG JÓL!


Hinn fjölhæfi Ketkrókur

KetkrókurKetkrókur leit inn á Þjóðminjasafninu í morgun. Hann hafði meðferðis ketkrókinn góða sem hann notaði til að krækja sér í hangiketslæri upp um reykháfinn á bæjunum forðum daga. Hann fullyrti að hann  væri gáfaðasti jólasveinninn og sá eini sem hefði tekið tæknina í sína þágu. Honum reyndist raunar fleira til lista lagt, því hann spilaði undir á píanó og söng áður en hann kvaddi. Á morgun sunnudag er von á síðasta jólasveininum, honum Kertasníki, og ef allt fer að óskum er ekki ólíklegt að hann láti sjá sig á safninu.

Gáttaþefur stakk nefinu inn ...

GáttaþefurGáttaþefur rak sitt myndarlega nef inn á Þjóðminjasafnið í morgun. Hann varð alveg gáttaður á hversu margir komu til að heilsa upp á hann þar, en það má með sanni segja að salurinn hafi verið troðfullur. Gáttaþefur sagðist hafa runnið á lyktina, enda létt verk að finna mannaþef þegar svona margir eru saman komnir. Hann var annars áhugasamari um að þefa uppi eitthvað ætilegt og varð mjög glaður þegar lítil stúlka færði honum laufabrauð sem hún hafði búið til sjálf. Það var okkur í Möguleikhúsinu mikil ánægja að aðstoða Þjóðminjasafnið við að taka á móti Gáttaþef og við bíðum spennt eftir þeim tveimur sveinum sem eftir eru.

Gluggagægir gægðist inn

Gluggagægir Tíundi jólasveinninn, Gluggagægir, kom í heimsókn á Þjóðminjasafnið í morgun. Honum mætti troðfullur salur af fólki, yfir 400 manns. Það fer ekki á milli mála að heimsóknir sveianna í safnið njóta sífellt vaxandi vinsælda. Gluggagægir tjáði gestunum að í raun væri hann að sinna félagsvísindastörfum þegar hann væri að gægjast inn um glugga. Honum þætti svo skelfilega gaman að kanna mannlífið. Hann sá til dæmis inn um Fullur salur af fólkieinn glugga í morgun þar sem pabbinn á heimilinu var að stelst til að fá sér af jólasmákökunum, eftir að hafa bannað börnunum það. Skemmtilegast þótti honum þó að koma í Hveragerði þar sem hann fann hús sem voru ekkert nema gluggar frá grunni og upp í rjáfur.

Níundi var Bjúgnakrækir

BjúgnakrækirBjúgnakrækir kom í Þjóðminjasafnið í morgun. það var troðfullur salur af börnum og fullorðnum sem tók á móti honum. Hann sagðist sakna þess nokkuð að finna ekki lengur bjúgu sem væru hengd upp í rjáfur í eldhúsunum eins og í gömlu torfbæjunum. Nú væru þau öll rækilega innpökkuð í plast í matvöruverslunum. Svo þykir honum kunnáttu landsmanna um bjúgu hafa farið heldur hrakandi síðustu árin. Það sé aðeins tala um bjúgu, en fáir kannist til dæmis fáir við sperðla, grjúpán og langa. Hann er því búinn að setja saman sérstaka bjúgnaorðabók sem hann er viss um að verði jólabókin í ár, þó hún sé að vísu aðeins til í einu eintaki.  Möguleikhúsið þakkar Bjúgnakræki fyrir komuna og hlakkar til að taka á móti bróður hans, Gluggagægi á morgun.

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband