Færsluflokkur: Menning og listir

Ellefti dagur námskeiðs

11. dagur - 24. júní

Nú taka æfingar að gerast strangari. Við byrjuðum strax fyrir hádegi að hamast í að raða saman því sem komið er og byrja að fínpússa. Sari Marit Cedergren sem aðstoðar okkur við útlit sýningarinnar var með okkur í allan dag og krakkarnir unnu með henni í að útbúa búninga og leikmuni milli þess sem þau æfðu á sviðinu. Það var því minni tími til að vera úti og njóta góða veðursins en undanfarna daga, rétt skroppið út í hádeginu. 


Tíundi dagur námskeiðs

 

10. dagur - 23. júní

Allir mættu endurnærðir eftir helgarfrí. Byrjuðum á að fara í stólakapphlaup, ævintýraspuna og morðingjaleik. Að því loknu var hafist handa við æfingar á sýningunni. Nú reynir á þolinmæðina þegar æfa þarf sömu atriðin aftur og aftur, en ekki hægt að segja annað en allir hafi staðið sig með mikilli prýði. Einn þátttakandinn, Sunna, átti tólf ára afmæli og bauð af því tilefni upp á kökur í hádeginu.


Níundi dagur námskeiðs

9. dagur

Eftir morðingjaleiki og nokkrar aðrar léttar æfingar var haldið áfram að vinna að sögunum um Þór og Mjölni. Eftir hádegið fengu allir að klæða sig upp í búninga úr safni leikhússins og síðan var haldið af stað í halarófu niður Laugaveginn með söng og tilheyrandi. Má með sanni segja að hópurinn hafi vakið athygli þar sem hann fór. Förinni var heitið á Austurvöll þar sem tveir leikþættir voru leiknir fyrir gesti og gangandi í sól og blíðu. Er við komum aftur í leikhúsið gafst tími til stuttrar dansæfingar áður en haldið var í helgarfrí.


Áttundi dagur námskeiðs

8. dagur

Í morgun fengu krakkarnir það verkefni að búa til sjónvarpsauglýsingu í litlum hópum. Að því loknu snerum við okkur að goðafræðinni og héldum áfram að prjóna við leikþætti undangenginna daga. Við æfðum okkur svolítið í að tjá okkur með látbragði eftir hádegið. Krakkarnir áttu að sýna athafnir án orða svo aðrir áttuðu sig á hvað þeir væru að gera. Að því loknu var rennt í gegnum alla leikþættina úr goðheimum. Myndlistarkonan Sarí, sem ætlar að aðstoða okkur við útlit sýningarinnar, mætti og spáði með okkur í útlitið.


Sjöundi dagur námskeiðs

7. dagur

Eftir þjóðhátíðarfrí mættu allir sprækir til leiks. Hófum daginn á léttum geimveruspuna þar sem krakkarnir léku geimverur sem komust í kynni við stól, en vissu ekki til hvers átti að nota hann. Síðan var haldið áfram þar sem frá var horfið í fyrradag og prjónað við sögurnar úr goðheimum. Í tilefni veðurblíðunnar unnið dálítið úti á Miklatúni eftir hádegið. Afraksturinn síðan sýndur inni í leikhúsinu. Við enduðum svo daginn á hópdansi undir stjórn Ragnheiðar Lóu og Bergljótar.


Sjötti dagur námskeiðs

6. dagur

Eftir að hafa tekið stuttar spunaæfingar í leikhúsinu í morgun tókum við strætó niður í miðbæ og heimsóttum Landnámssýninguna í Aðalstræti. Fengum þar með eindæmum góða leiðsögn og getum vonandi nýtt okkur eitthvað af hugmyndum þaðan þegar við höldum áfram að vinna með sögur úr hinni fornu goðafræði. Eftir hádegið var skipt í tvo hópa sem unnu nánar með upphafið að sögunni um það er hamrinum Mjölni var stoðlið. Margar góðar hugmyndir skutu upp kollinum svo nú þarf að fara að púsla saman.


Fimmti dagur námskeiðs

5. dagur

Við hófum daginn á að fara í myndastyttuæfingu þar sem krakkarnir gerðu styttur hvort úr öðru. Æfðum okkur líka aðeins að segja sögu í hópnum. Að ósk barnanna fengu þau síðan að æfa draugaspuna sem voru mjög skemmtilegir. Að því loknu var enn á ný tekið til við söguna af hamri Þórs og unnið með hana í tveimur hópum. Um hádegi fórum við upp í garðinn við Listasafn Einars Jónssonar. Þar fengu krakkarnir það verkefni að gera spuna sem byggðu á höggmyndunum í garðinum. Er við komum aftur í leikhúsið héldu Bergljót og Ragnheiður áfram að æfa dansinn með krökkunum.


Fjórði dagur námskeiðs

4. dagur

Enn var byrjað á upphitunaræfingum með öllum hópnum. Síðan farið í spunaleiki. Puttalingurinn, þar sem ferðalangar taka upp puttaling og taka allir upp hegðun hans. Eftir það var skipt í hópa sem áttu að prjóna við sögurnar um Þór og Loka frá því fyrr í vikunni. Einnig spunnið út frá stökum orðum á miðum. Þar sem enn var hin mesta veðurblíða úti héldum við áfram úti á Miklatúni eftir hádegið og lékum okkur þar enn meira með sögur úr goðafræðinni. Er heim í leikhús var komið tóku við dansæfingar undir stjórn Bergljótar og Ragnheiðar Lóu.


Þriðji dagur námskeiðs

3. dagur

Eftir nokkrar upphitunaræfingar, m.a. spegilæfinguna góðkunnu, var enn á ný skipt í hópa sem undirbjuggu spuna. Viðfangsefnin voru af ýmsu tagi, það átti að sýna sirkusatriði, lenda í mismunandi hættum á ferðalagi o.fl. Þar sem veðrið var með eindæmum gott var ákveðið að eyða seinni hluta dagsins utandyra. Eftir að hafa borðað nestið úti á Miklatúni var tekið til við að æfa þar leikþætti sem byggðir voru á sögum úr goðafræðinni. Fengum við þar meðal annars að sjá söguna af því hvernig hamar Þórs varð til. 


Annar dagur námskeiðs

2. dagur

Við hófum daginn á nokkrum léttum leikjum, m.a. "já leiknum" til að þjálfa okkur aðeins í jákvæðninni. Að því loknu var skipt í þrjá hópa sem hver um sig áttu að undirbúa spuna byggðan á fyrirsögn úr dagblaði. Síðan var lesin sagan um það þegar þursinn Þrymur stal hamri Þórs og krakkarnir léku svo söguna, aftur í þremur fjögurra manna hópum. Eftir hádegið var farið í "spæjaraferð" niður í bæ. Þá voru krakkarnir með minnisbækur með sér og áttu að punkta niður minnisatriði um áhugaverðar persónur sem á vegi þeirra urðu. Er við komum aftur í leikhúsið voru þessar persónur nýttar í spuna.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband