Færsluflokkur: Menning og listir

Sumarnámskeiðið hafið

img_0003Hið árlega sumarnámskeið Möguleikhússins hófst í dag, mánudaginn 9. júní. Þátttakendur að þessu sinni eru 12 talsins, á aldrinum 8-12 ára. Leiðbeinendur eru Margrét Pétursdóttir og Pétur Eggerz. Þeim til aðstoðar eru Bergljót Pétursdóttir og Ragnheiður Lóa Stefánsdóttir. Við munum birta dagbók námskeiðsins hér á síðunni og einnig á heimasíðu leikhússins, www.moguleikhusid.is

1. dagur

1995412_img_0006Það voru 12 gallvaskir krakkar sem mættu á námskeiðið í morgun, 10 stelpur og tveir strákar. Við byrjuðum á að fara í nafnaleiki og aðra létta spunaleiki til að hrista hópinn saman. Veltum fyrir okkur hvað þyrfti til að búa til leiksýningu og komumst að því að í raun þyrfti ekkert annað en leikara. Eftir hádegið var farið í blindingsleik og í lok dags kynntum við okkur söguna af sköpun heimsins samkvæmt norrænu goðarfræðinni.


Ályktun stjórnar SL vegna málþings

SLÍ kjölfar málþings á vegum SL, bandalags atvinnuleikhópa, undir yfirskriftinni Er starfsumhverfi sjálfstæðra leikhópa í takt við tímann sem haldið var í Iðnó fimmtudaginn 29. maí hefur stjórn SL ályktað eftirfarandi:

 

Augljóst er orðið að opinber fjárframlög til sviðslista taka mið af umhverfi sem er gjörbreytt. Eins og fram kom á málþingi SL síðastliðinn fimmtudag sjá Sjálfstæðu leikhúsin um rúmlega helming sviðsuppsetninga á landinu, fá til sín fleiri áhorfendur en stofnanaleikhúsin til samans, sjá nær alfarið um leikferðir á landsbyggðinni og eru öflugust í útrás sviðslista. Úthlutunarkerfið endurspeglar engangveginn þessa staðreynd þar sem aðeins 5% af þeim heildarfjármunum sem varið er til sviðslista í landinu renna til starfsemi sjálfstæðra leikhúsa. Úthlutunarkerfi til sviðslista í landinu er því rangt uppsett og það þarf að laga. Stjórn SL telur brýnt að hlutur sjálfstæðra leikhúsa verði leiðréttur hið fyrsta þannig að opinber fjárframlög endurspegli mikilvægi sjálstæðra leikhúsa fyrir sviðslistaumhverfi landsins.


Málþing um sjálfstæð leikhús

SLMálþing Sjálfstæðu leikhúsanna fmmtudaginn 29. maí 2008 kl. 12-14 Í iðnó  Er starfsumhverfi stjálfstæðra leikhópa í takt við tímann?    

Mælendaskrá: 

Karítas Gunnarsdóttir, skrifstofustjóri menningarmála hjá Menntamálaráðuneytinu

Opnar málþingið og fer yfir hlutverk og skyldur hins opinbera gagnvart sjálfstætt starfandi sviðslistahópum   

Orri Hauksson formaður Leiklistarráðs

Kostir og gallar úthlutunarreglna Leiklistarráðs  

Ragnar Karlsson, frá Hagstofu Íslands

Þróun í aðsóknartölum síðustu tíu ára.  

Páll Baldvin Baldvinsson, leikhúsfræðingur og blaðamaður

Mikilvægi atvinnuleikhópa í sögulegu samhengi  

Aino Freyja Järvelä, formaður SL

SL, bandalag atvinnuleikhópa, horft til framtíðar.    

Umsjón og samantekt:

Magnús Árni Magnússon.   

Málþingið stendur frá kl. 12:00 – 14:00 Léttur hádegisverður í boði SL.   Þátttakendur eru vinsamlegast beðnir um að skrá sig á netfangið leikhopar@leikhopar.is eða í síma: 551 1400 fyrir 28. maí 2008.   


Skráning á sumarnámskeið í fullum gangi

Sumarnámskeið í Möguleikhúsinu Skráning á sumarnámskeið Möguleikhússins fyrir börn á aldrinum 9-12 ára er nú í fullum gangi. Námskeiðið hefst mánudaginn 9. júní og lýkur með leiksýningu föstudaginn 27. júní. Enn eru laus pláss á námskeiðið, en skráning fer fram í síma 5622669 eða á moguleikhusid@moguleikhusid.is. Nánari upplýsingar um námskeiðið er að finna á slóðinni http://www.moguleikhusid.is/moguleikhusid/sumarnamskeid/

Fleiri fréttir frá Ástralíu

Ástralía maí 08 364Nú er farið að líða að lokum heimsþings barnaleikhúsa og alþjóðlegu barnaleikhúshátíðarinnar hér í Adelaide í Ástralíu. Gærdagurinn var undirlagður af umræðuhópum þar sem fjallað var um allt milli himins og jarðar sem viðkemur barnaleikhúsi. Þar kom margt áhugavert fram og gaman að heyra hversu svipaðar vangaveltur fólks eru, saman hvaðan það kemur. Meðal umræðuefna var leikhús fyrir yngstu börnin, spurningin hvort leikhús geti haft áhrif á samfélagið, hlutverk leikhússins í fjölmenningarsamfélaginu, vangaveltur um hvaðan efniviðurinn í leiksýningarnar komi o.s.fr.v. Í dag var hinsvegar gengið til kosninga og ákveðið hvar næsta þing skyldi haldið. Það var nokkur spenna í loftinu, þrjú tilboð voru í að halda þingið 2011, frá London, Linz í Austurríki og sameiginlegt tilboð frá Svíþjóð og Danmörku að halda það í Kaupmannahöfn og Malmö. Niðurstaðan var sú að árið 2011 mun barnaleikhúsfólk allsstaðar að úr heiminum hittast í Kaupmannahöfn og Malmö. Það er sérstaklega ánægjulegt fyrir okkur í íslensku barnaleikhússamtökunum þar sem allar norðurlandaþjóðirnar munu eiga virkan þátt í undirbúningsvinnunni. Það var einnig kosinn nýr framkvæmdastjóri fyrir samtökin, en Svíinn Niclas Malmkrona, sem gegnt hefur starfinu af stakri prýði í 9 ár gaf ekki kost á sér til endurkjörs. Í hans stað var Króatinn Ivica Simic kjörinn. Þá var einnig kjörið nýtt 14 manna framkvæmdaráð með fullrúum úr öllum heimálfum. Á morgun mun ég síðan hella mér í að sjá sýningar, á bókaða miða á einar sex!


Heimsþing barnaleikhúsa í Ástralíu

Þessa dagana er Pétur Eggerz, stjórnandi Möguleikhússins og formaður ASSITEJ Íslands, Samtaka um barna- og unglingalaikhús á Íslandi, staddur í Adelaide í Ástralíu þar sem fram fer alheimsþing ASSITEJ, Alþjóðasamtaka um barna- og unglingaleikhús. Hann skrifar eftirfarandi pistil þaðan.

Adelaide 13. maí 2008

Pétur með koalabjörnHingað til Adelaide kom ég að morgni föstudagsin 9. maí eftir ferðalag em tók hátt á ánnan sólarhring með viðkomu í Amsterdam og Singapore. Tilefnið það að hér fer fram 16 heimsþing AISSTEJ, sem eru alþjóðasamtök um barna- og unglingaleikhús, en Ílendingar hafa átt aðild að samtökunum frá árinu 1990. Þing sem þetta er haldið þriðja hvert ár og var síðast haldið 2005 í Montreal í Kanada. Þar var ákveðið að næsta þing skyldi haldið í Ástralíu og því hefur barnaleikhúsfólk úr öllum heimshornum tekið stefnuna hingað.  Á þinginu er kosin framkvæmdatjórn til næstu þriggja ára, auk þess sem kosið verður í stöður forseta, framkvæmdastjóra og gjaldkera. Ákveðið er að hvaða markmiðum samtökin kulu vinna á næstu þremur árum og að lokum ákveðið hvar næsta þing, sem haldið verður 2011, skuli haldið. Þá er þingið ekki hvað síst tækifæri barnaleikhúsfólks allsstaðar að úr heiminum til að hittast og ræða málin. Jafnhliða þinginu er hér haldin alþjóðleg barnaleikhúshátíð þar sem gefur að líta úrval leiksýninga úr öllum heimshornum.

Ferðin frá Íslandi til Adelaide tók allnokkurn tíma, alls liði 33 klukkutímar frá því lagt var upp frá Keflavíkurflugvelli uns lent var í Ástralíu. Þá var búið að millilenda í Amsterdam og Singapúr. Maður var því þreyttur og vankaður fyrsta daginn hér. Það má líka segja að hér sé flest nokkuð öfugsnúið miðað við heima á Íslandi, klukkan er níu og hálfum tíma á undan, hér er haust og laufin að falla af trjánum (þó úti sé 20 stiga hiti og sól), svanirnir eru svartir og allir keyra á vinstri akrein. Eftir rúman sólarhring var maður þó svotil laus við flugþreytuna og tilbúinn að hella sér út í að sjá nokkrar þeirra sýninga sem boðið er upp á. Meðal þeirra sem vöktu athygli mína má nefna nokkrar.

FluffFluff er áströlsk sýning fyrir yngri börn. Höfundur, leikstjóri og höfundur leikmyndar er Christine Johnston, en hún leikur einnig í sýningunni. Hér segir frá tveimur sérstökum konum sem safna saman leikföngum sem eigendurnir hafa glatað og gefa þeim nýtt líf á einstaklega skemmtilegan hátt. Frá Kóreu kemur sýningin Gamoonjang Baby sem byggir á gamalli þjóðsögu. Fjórir leikarar segja söguna af einstakri lífgleði og krafti með mikilli líkamstjáningu og tónlist. Ég varð raunar þes heiðurs aðnjótandi að vera kallaður upp á sviðið til að aðstoða í einu Gamoonjang%20Babyatriði sýningarinnar. Mitt fyrsta hlutverk í kóreönsku leikhúsi! Überraschung er danssýning sem kemur frá Austurríki. Tveir dansarar koma áhorfendum sífellt á óvart með smáum sem stórum uppátækjum og enda með að skvetta vatni úr hjólbörum yfir allt sviðið við mikinn fögnuð áhorfenda. Gaman að sjá hversu skemmtilega hluti er hægt að gera fyrir börn í danssýningum. Fleiri góðar sýningar eru hér að sjálfsögðu, en ég læt duga að nefna þessar í bili.

En það er ekki bara boðið upp á leiksýningar. Umræðufundir og málþing um leikhús fara fram á hverjum degi. Susanne Osten, leikstjóri frá Svíþjóð er sérstakur gestur hátíðarinnar. Hún flutti erindi um sýningu sem hún hefur unnið með leikhúsinu Unga Klara í Stokkhólmi fyrir börn á aldrinum 5 mánaða til eins árs. Sér til aðstoðar hafði hún barnaálfræðing og ef dæma má að kynningarmyndbandi um verkið er hér um mjög áhugaverða leikhúsvinnu að ræða, ein og ævinlega þegar Susanne Osten er annars vegar. Hún tók raunar einnig þátt í pallborðsumræðum um leikritun fyrir börn og unglinga ásamt höfundum frá Ástralíu, Argentínu og Þýskalandi. Fleiri umræðufundir verða næstu daga.

Ástralía maí 08 153Mánudaginn 12. maí hófst síðan sjálft þingið sem stendur til vikuloka. Þar er dagskráin stíf og mörg formsatriði sem þarf að uppfylla. Engu að síður gefst af og til tími til að bregða sér í hlutverk túristans. Þannig fór ég t.d. á sunnudag í ferð í svokallaðan "wildlife" garð þar sem unnt var að komast í návígi við kengúrur, kóalabirni, dingóa og fleiri af hinum sérstöku áströlsku dýrum.

Meiri upplýsingar um þingið og hátíðina er að finna á slóðinni http://www.assitej2008.com.au/festival/festival-program

 


Skráning hafin á sumarnámskeið Möguleikhússins

NámskeiðSkráning er nú hafin á hið vinsæla sumarnámskeið Möguleikhússins fyrir börn á aldrinum 9 – 12 ára.

Frá árinu 1995 hefur Möguleikhúsið staðið fyrir leikhúsnámskeiðum fyrir börn á sumrin með dyggum stuðningi frá Íþrótta- og tómstundaráði Reykjavíkur. Um er að ræða þriggja vikna námskeið þar sem unnið er með börnunum fimm tíma á dag fimm daga vikunnar. Tuttugu börn komast á hvert námskeið. Á námskeiðunum er unnið með flest þau atriði sem tengjast hefðbundinni leikshúsuppsetningu. Meðal þess sem fengist er við má nefna; gerð handrits, æfingar, leikmynd og búningar, lýsing ofl. Þó að vinnan fari að mestu leyti fram innan dyra er einnig reynt að brjóta upp daginn með því að fara út í guðs græna náttúruna, ef veður leyfir. Allir þessir þættir eru síðan nýttir til að vinna leiksýningu frá grunni, sem sýnd er í Möguleikhúsinu í lok námskeiðsins. Skapast hefur sú hefð að sýningin sé sýnd a.m.k. tvisvar, annars vegar fyrir börn á nokkrum leikjanámskeiðum á vegum Íþrótta- og tómstundaráðs Reykjavíkur og hins vegar fyrir aðstandendur barnanna. Leiðbeinendur á námskeiðunum eru leikhúslistamenn sem hafa mikla reynslu af að vinna í barnaleikhúsi auk aðstoðarmanna.

Í sumar er boðið upp á eitt námskeið fyrir börn á aldrinum 9-12 ára, það hefst 9. júní og lýkur 27. júní. Unnið er frá 9:00 til 14:00. Þátttakendur á námskeiðinu eru 20.  Námskeiðinu lýkur með sýningu föstudaginn 27. júní kl. 17:00.

Skráning á námskeiðið fer fram í  s. 562 2669 og á moguleikhusid@moguleikhusid.is. Þátttökugjald er 44.000 kr. Greiða þarf 10.000 kr. staðfestingargjald við skráningu.

Barnavinafélagið Sumargjöf styrkir Möguleikhúsið

stor_solSunnudaginn 27. apríl veitti Barnavinafélagið Sumargjöf Möguleikhúsinu styrk að upphæð kr. 2.000.000 við sérstaka athöfn í leikskólanum Grænuborg. Það er leikhúsinu ómetanlegt að hljóta stuðning sem þennan, ekki síst nú þegar stuðningur opinberra aðila við starfsemina hefur dregist verulega saman. Það er því með miklu þakklæti sem við tökum við þessari upphæð frá þessu merka félagi, sem hefur í rúm áttatíu ár sinnt hagsmunamálum barna af mikilli alúð. Um leið gerum við okkur grein fyrir að stuðningnum fylgir sú ábyrgð að við höldum starfi okkar áfram og leggjum metnað okkar í að bjóða börnum og unglingum vandaðar leiksýningar.

Auk Möguleikhússins hlutu bókmenntahátíðin Mýrin, Þjóðminjasafnið og Bryndís Guðmundsdóttir, talmeinafræðingur, styrki frá Barnavinafélaginu Sumargjöf.


Möguleikhúsið gerir víðreist

Það má svo sannarlega segja að Möguleikhúsið sé á ferð og flugi þessa dagana. Auk sýninga á höfuðborgarsvæðinu eru sýningar framundan í ýmsum landshlutum. Miðvikudaginn 23. apríl fer leikhúsið með Sæmund fróða austur á Hvolsvöll og sýnir í grunnskólanum þar, sumardaginn fyrsta, 24. apríl, er Höll ævintýranna sýnd í Festi í Grindavík og Landið vifra í Félagsheimilinu á Hvammstanga, mánudaginn 28. apríl eru þrjár sýningar á Sæmundi fróða í Sindrabæ, Höfn í Hornafirði, fyrir grunnskólabörn á svæðinu og í maí er áætluð leikferð norður í land með Langafa prakkara. Það er því ekki hægt að segja annað en það standi undir nafni sem ferðaleikhús um þessar mundir.

Heimsókn á danska barnaleikhúshátíð

Barnaleikhúshátíð í NæstvedDagana 7. - 13. apríl s.l. fórum við tvö, Pétur Eggerz og Alda Arnardóttir, frá Möguleikhúsinu á árlega hátíð danskra barnaleikhúsa. Hátíð þessi er haldin í apríl ár hvert, en fer á milli staða og er því aldrei haldin í sama bænum tvö ár í röð. Í ár var hátíðin haldin í Næstved á Sjálandi. Hátíðin er haldin til að kynna þær sýningar sem leikhúsin hafa í boði fyrir skóla næsta vetur. Þangað flykkist því fólk frá skólum, bókasöfnum og öðrum þeim sem kaupa sýningar fyrir hópa. Að hátíðinni lokinni er síðan tekið til við að bóka sýningar og fyrir sumarið er yfirleitt búið að ganga nokkurnvegin frá sýningaáætlun næsta vetrar. Að auki flykkist hópur leikhúsfólks allstaðar að úr heiminum á hátíðina, enda danskt barnaleikhús rómað sem eitt hið besta sem völ er á. Í ár voru sýndar um 150 leiksýningar á hátíðinni frá 100 leikhópum. Það var því úr mörgu að velja og ekki hægt að sjá nema hluta af því sem í boði var. Það var byrjað að sýna kl. níu að morgni og sýningum fram haldið til kvölds. Flestar voru sýningarnar 40 - 60 mínútur að lengd og því hægt að sjá nokkuð margar hvern dag. Á þeim fimm dögum sem við vorum þarna náðum við að sjá rúmlega tuttugu sýningar. Auðvitað voru þær misjafnar að gæðum, en það sem vakti hvað mesta athygli var af hve mikilli fagmennsku þær voru allar unnar, leikarar upp til hópa mjög góðir, útlit vel unnið og áræðni og framsækni ríkjandi þegar að verkefnavali og vinnulagi kemur. Nokkrar sýninganna stóðu þó óneitanlega uppúr.

hamlet058thMinnisstæðust er tvímælalaust sýning Det lille Turnéteater (http://www.detlilleturneteater.dk) á Hamlet, þar sem leikritið var flutt af tveimur leikurum og tveimur kontrabassaleikurum. Sýningin var leikin í íþróttasal þar sem eingöngu var notast við þá lýsingu sem fyrir var, leikmynd öll með einfaldasta sniði, en vinna leikaranna og samspil þeirra við tónlistarmennina slík að sagan um danaprinsinn snerti mann sem aldrei fyrr. Aðrar sýningar frá Det lille Turnéteater voru einnig með þeim betri á hátíðinniRómeó og Júlía, m.a. Rómeó og Júlía, þar sem tveir leikarar léku sýninguna og notuðu til þess stórar en einfaldar brúður. Höfðu margir á orði að þeir hefðu aldrei fyrr tárast yfir örlögum leikbrúða á sviði. Nokkra athygli vakti einnig sýning leikhússins Corona La Balance á Bubba kóngi. Þar var ekkert dregið undan í subbuskap né orðbragði verksins þrátt fyrir að sýningin væri ætluð áhorfendum á aldrinum 8 - 12 ára.

Í sýningu Teatret Trekanten (http://www.teatrettrekanten.dk/), Englen & Den blå hest var fjallað um samskipti Guðs og engils. Þeir sitja einir saman uppi á himnum og hafa lítið annað en félagsskap hvors annars. Þegar Guð skapar lítinn bláan hest fyrir engilinn breytist allt. Það er erfiðara að vera þrír en tveir. Þetta var sérstaklega hlý sýning um vináttuna, Guð o.fl., en um leið óborganlega fyndin. Önnur sýning sem kitlaði hláturtaugarnar var sýning Teater TT (http://www.teatertt.dk/ ) Freddy og far, þar sem góðkunningi okkar úr Möguleikhúsinu, Torkild Lindebjerg, fór á kostum í einleik þar sem Freddy segir frá ótrúlegu lífhlaupi "uppeldisföður" síns. Gamanleikur í Chaplinskum anda.

AmledÍ samanburði við sýningu Det lille Turnéteater á Hamlet var áhugavert að sjá sýningu Det Fortællende Teater ( http://www.detfortaellendeteater.dk/ ) á Amlet, eða Amlóða. Hér var hin forna frásögn um Amlóða danaprins lögð til grundvallar, eða sú sama sögn sem Shakespeare lagði til grundvallar sínum Hamlet. Það er leikarinn Jesper la Cour Andersen sem er maðurinn á bakvið leikhúsið, en hann hefur sérhæft sig í frásagnarleikhúsi. Í þessari sýningu hefur hann leikkonuna Katrine Faber sér til fulltingis og saman leika þau söguna án nokkurra hjálparmeðala, tónlistar, leikmuna eða ljósabreytinga, en gera með þeim hætti að maður dregst með þeim inn í söguna allan tímann. Þess er gaman að geta að einn af ráðgjöfum þeirra við sýninguna var Benedikt Erlingsson.
busSTOR3
Sýning Holbæk Teater ( http://www.het.dk/ ) á leikritinu Gidsel, eða Gísl, fór fram með nokkuð óvenjulegum hætti. Áhorfendur fóru inn í rútu og var sagt að þeim yrði ekið í leikhúsið. Leikari, sem segist ættaður frá Pakistan, er í hlutverki fararstjóra sem ræðir við áhorfendur. En fljótlega taka málin óvænta stefnu. Ung kona á bíl stoppar rútuna. Þar er þá komin unnusta fararstjórans sem hefur komist að því að hann sé að fara að ganga að eiga aðra stúlku frá Pakistan. Þarna takast semsagt á fjölskylda hans sem vill fá að skipuleggja brúðkaup og tilfinningar fólksins. Þetta var vel útfærð átakasaga fyrir unglinga sem endaði með að persónurnar tóku bílstjóra og farþega (áhorfendur) í gíslingu.
Margar fleiri sýningar mætti nefna þar sem umfjöllunarefnin voru af ýmsum toga, borgarastyrjöld, ófullkomleiki okkar allra, árstíðir, Sigurður Fáfnisbani, föðurmissir, bláeygður köttur, einmanaleiki í netheimum og þannig mætti lengi telja. Ekki verður þó hjá því komist að minnast í lokin á gestasýningu frá Ítalíu, það var leikhópurinn Compagnia RODISIO ( http://www.rodisio.it/ ) með sýninguna Storia di una famiglia, eða fjölskyldusaga. Einstaklega vel heppnuð og skemmtileg saga um hversdagslíf fjölskyldunnar þar sem unnið var út frá frásögnum barna af fjölskyldulífinu.
Það var því mikil vítamínsprauta fyrir okkur, barnaleikhúsfólkið frá Íslandi, að fá að koma þarna, sjá allar þessar góðu sýningar og spjalla við kollega okkar. Nú er bara að melta það sem við sáum og upplifðum og vinna úr því.

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband