Færsluflokkur: Menning og listir

Langafi prakkari í leikferð um vestfirði

Langafi prakkari Möguleikhúsið hóf leikferð sína um vestfirði með sýninguna vinsælu um Langafa prakkara í dag. Tvær sýningar voru þennan fyrsta dag ferðarinnar, fyrst var sýnt í grunnskólanum á Borðeyri klukkan níu í morgun og síðan á Hólmavík klukkan eitt. Að því loknu var förinni haldið áfram og stefnan tekin á Ísafjörð. Á morgun bíða síðan þrjár sýningar, í Bolungarvík, á Ísafirði og Flateyri. Alls verða sýndar ellefu sýningar í þessari fyrstu leikferð haustsins, sem stendur fram á fimmtudag. Það verður því í nógu að snúast hjá leikhópnum næstu dagana en það eru þau Aino Freyja Järvelä og Bjarni Ingvarsson sem fara með hlutverkin í sýningunni.

BARNALEIKHÚS Á TÍMAMÓTUM

Áhorfendur á sýningu MöguleikhússinsMöguleikhúsið stendur á tímamótum. Það er átján ára og hefur formlega slitið barnsskónum, er orðið fullorðið barnaleikhús. En það stendur líka á tímamótum í öðrum skilningi. Í sumar flutti Möguleikhúsið úr húsnæðinu við Hlemm þar sem það hefur haft aðsetur síðustu 14 árin. Í ljósi samdráttar á opinberum stuðningi var því miður ekki lengur grundvöllur fyrir áframhaldandi rekstri barnaleikhússins við Hlemm. En Möguleikhúsið hefur þó síður en svo hætt starfsemi og mætir til leiks með öfluga vetrardagskrá. Frá upphafi hefur það verið rekið sem ferðaleikhús sem kemur með sýningar sínar í heimsókn í leik- og grunnskóla og mun starfa áfram á þeim grundvelli.Dagskrá vetrarins er fjölbreytt og höfðar til allra aldurshópa barna og unglinga, allt frá leikskólabörnum til framhaldsskólanema.Frá fyrra leikári verður haldið áfram sýningum á fimm verkum. Langafi prakkari, sýning sem byggð er á sögum Sigrúnar Eldjárns, sem nú þegar er kominn upp í 220 sýningar, heldur áfram að heilsa upp á börn í leik- og grunnskólum. Það gerir einnig ljóðafólkið frá Landinu vifra, þar sem veitt er innsýn í hinn skemmtilega ljóðaheim Þórarins Eldjárns, en sú sýning var tilnefnd til Grímunnar – íslensku leiklistarverðlaunanna sem barnasýning ársins 2005. Þá mun Sæmundur fróði halda áfram að skemmta grunnskólabörnum með sinni ógleymanlegu glímu við kölska sjálfan í leikgerð Péturs Eggerz. Jóladagskráin hefst í lok nóvember með jólaleikritinu vinsæla Hvar er Stekkjarstaur? Einleikurinn Aðventa, leikgerð Öldu Arnardóttur sem byggir á klassískri sögu Gunnars Gunnarssonar, var frumsýndur síðasta leikár við góðar undirtektir og býðst nú unglingadeildum og framhaldsskólum, en sýningin verður einnig á almennum sýningum í Iðnó á aðventunni. Þá mun Möguleikhúsið, líkt og undanfarin 14 ár aðstoða við að taka á móti íslensku jólasveinunum er þeir koma til byggða og heimsækja Þjóðminjasafn Íslands. Þar hefur alla jafna safnast saman mikill mannfjöldi til að heilsa upp á bræðurna sem koma einn af öðrum frá 12. desember til aðfangadags. Það er Pétur Eggerz sem hefur yfirumsjón með heimsókn sveinanna fyrir hönd Möguleikhússins, en tónlistarstjóri og sérstakur móttökufulltrúi er Guðni Franzson. Eftir áramótin snýr einleikur sellóleikarans Stefáns Arnar Arnarsonar, Tónleikur, aftur eftir nokkurra ára hlé og verður sýndur í takmarkaðan tíma í samvinnu við Tónlist fyrir alla. Önnur sýning snýr einnig aftur eftir langt hlé, en það er verðlaunasýningin Völuspá, eftir Þórarin Eldjárn, sem sýnd verður á leikferð í Bandaríkjunum í maí.Í mars er komið að frumsýningu á nýju bráðskemmtilegu verki, en það er Alli Nalli og tunglið, sem byggir á vinsælum barnasögum Vilborgar Dagbjartsdóttur. Sýningin er ætluð allra yngstu áhorfendunum og mun ferðast milli leikskólanna. Leikgerð sýningarinnar er unnin af Öldu Arnardóttur og Pétri Eggerz, en hann er jafnframt leikstjóri sýningarinnar. Leikmynd og búningar eru í höndum Messíönu Tómasdóttur en umsjón með tónlist hefur Kristján Guðjónsson. Leikarar eru Alda Arnardóttir og Anna Brynja Baldursdóttir.Það ættu því allir að finna eitthvað við sitt hæfi á dagskrá vetrarins – GÓÐA SKEMMTUN! Nánari upplýsingar um Möguleikhúsið og sýningar þess er að finna á heimasíðunni www.moguleikhusid.is

Leikárið að hefjast

Langafi prakkari

Nýtt leikár er nú að hefjast hjá okkur í Möguleikhúsinu. Við byrjum á því að fara með hinn sívinsæla Langafa prakkara í leikferð um vestfirði. Erum þessa dagana að bóka sýningar þar og óhætt að segja að undirtektirnar séu mjög góðar. Framundan er síðan önnur leikferð með Langafa um norðurland og ferð með Sæmund fróða um austurland. Með þessum ferðum höldum við áfram að vinna að því að skapa börnum um land allt jafnan aðgang að sýningum leikhússins, því það er bjargföst trú okkar að öll börn eigi jafnan rétt á að njóta menningar hvar á landi sem þau búa. Svo má ekki heldur gleyma því hvað við höfum gaman af að ferðast um landið okkar og hitta gott fólk.

 


Leikarar Möguleikhússins í heimsókn í Stundinni okkar

Picture 006Um þessar mundir fara fram upptökur á þáttum vetrarins fyrir Stundina okkar í Sjónvarpinu. Það er Björgvin Franz Gíslason sem sér um þáttinn í vetur og verður hann með nokkuð öðru sniði en verið hefur. Leikarar Möguleikhússins, Alda Arnardóttir og Pétur Eggerz, verða gestir í einum þætti og var hann tekinn upp nýlega. Hér á myndinni má sjá þau í gerfum tröllabarnanna Þusu og Þrasa ásamt Björgvini Franz. Nokkur bið verður þó eftir að sjónvarpsáhorfendur sjái þáttinn þar sem hann er ekki á dagskrá fyrr en í janúar.

Ný skrifstofa Möguleikhússins á Tjarnargötu

Picture 008Möguleikhúsið hefur nú opnað nýja skrifstofu að Tjarnargötu 12. Það er Reykjavíkurborg sem hefur aðstoðað leikhúsið við að koma sér upp aðstöðu þar, en eins og kunnugt er varð leikhúsið að hætta rekstri húsnæðisins við Hlemm eftir að ljóst var að opinber stuðningur var orðinn allverulega minni en áður. Kunna aðstandendur Möguleikhússins borgaryfirvöldum bestu þakkir fyrir að hlaupa með þessum hætti undir bagga nú þegar þrengra er í búi en oft áður. Þessa dagana er verið að leggja lokahönd á skipulagningu næsta leikárs á nýju skrifstofunni og mun það verða kynnt nánar á næstunni.

Möguleikhúsið ekki lengur við Hlemm

Bjarni Ingvarsson tekur niður skiltið á Möguleikhúsinu við HlemmMöguleikhúsið hefur nú flutt úr húnæðinu við Hlemm þar sem það hefur haft aðsetur frá árinu 1994. Nýir eigendur hafa tekið við því húsnæði og ljóst að þar verður ekki starfrækt leikhús áfram. Þar með hefur leikhússölum landsins fækkað um einn og Möguleikhúsið á ný komið í hóp húsnæðislausara leikhópa. Leikmyndum og öðrum eignum leikhússins hefur verið komið fyrir í geymslu til bráðabirgða, en verið er að leita lausna á húsnæði fyrir skrifstofu á vegum Reykjavíkurborgar. Vonir standa einnig til að æfingahúsnæði finnist fyrir haustið. En þrátt fyrir þessar breytingar heldur Möguleikhúsið áfram fullri starfsemi og er nú unnið að undirbúningi næsta leikárs. A.m.k. sjö sýningar verða í boði næsta vetur og verða sýndar í grunn- og leikskólum um land allt og víðar. Leikárið verður kynnt nánar í lok sumars.

Fjórtándi dagur námskeiðs - lokadagur

14. dagur - 27. júní

Sýningardagurinn mikli er runninn upp. Það var mætt heldur seinna í morgun en vanalega, eða ekki fyrr en kl. ellefu. Eftir að hafa gengið endanlega úr skugga um að allt væri tilbúið fyrir sýninguna var rennt í gegnum verkið. Síðasta tækifæri til að lagfæra og fínpússa. Þá fór að líða að fyrri sýningunni og allir farnir að fá fiðrildi í magann. Klukkan tvö komu svo hingað 100 börn af leikjanámskeiðum til að horfa á sýninguna. Leikararnir stóðu sig með mikilli prýði. Hingað kom líka fjölmiðlafólk, blaðamaður frá Séð og heyrt og útvarpsmaður frá Leynifélaginu á Rás 1 sem tóku viðtal við krakkana. Sýningin fyrir aðstandendur hófst síðan kl. 17 og gekk með eindæmum vel. Fagnaðarlátum ætlaði seint að linna.  Þar með er þessu skemmtilega námskeiði lokið og við í Möguleikhúsinu þökkum fyrir okkur.


Þrettándi dagur námskeiðs

13. dagur - 26. júní

Allt á suðupunkti. Í upphafi dags hlaupa leikarar um allt hús í leit að leikmunum og búningum, mála það sem eftir á að mála, sauma það sem eftir á að sauma og þar fram eftir götunum. "Vantar einhvern blóð?" er hrópað úr einu horninu, "Á ég líka að mála augabrúnirnar að aftan?" úr öðru horni og "Ég finn ekki nefið mitt!" úr því þriðja. Með undraverðum hætti tekst þó að koma öllu heim og saman og sýningin farin að taka á sig endanlega mynd.


Síðasta sýningin í Möguleikhúsinu við Hlemm

20.júní011Frá árinu 1995 hefur Möguleikhúsið staðið fyrir leikhúsnámskeiðunum “Leikhús möguleikanna” fyrir börn á sumrin sem haldin hafa verið í húsnæði Möguleikhússins við Hlemm. Um er að ræða þriggja vikna námskeið þar sem unnið er með börnunum fimm tíma á dag fimm daga vikunnar og fengist við flest þau atriði sem tengjast leikshúsuppsetningu. Allir þessir þættir eru síðan nýttir til að vinna leiksýningu frá grunni, sem sýnd er í Möguleikhúsinu í lok námskeiðsins. Skapast hefur sú hefð að sýningin sé sýnd a.m.k. tvisvar, annars vegar fyrir börn á nokkrum leikjanámskeiðum og hins vegar fyrir aðstandendur barnanna.

Nú í sumar hófst námskeiðið 9. júní og lýkur með sýningu næstkomandi föstudag, 27. júní. Sýningin ber heitið “Hentu í mig hamrinum” og byggir á sögum úr norrænni goðafræði, nánar tiltekið frásögninni af því er Þrymur stelur hamri Þórs. Þátttakendur eru 12 börn á aldrinum 9 til 12 ára en leiðbeinendur á námskeiðinu eru Pétur Eggerz og Margrét Pétursdóttir.Sýningin á föstudag verður jafnframt síðasta leiksýningin í Möguleikhúsinu  við Hlemm, en vegna minnkandi stuðnings frá menntamálaráðuneytinu er ekki lengur grundvöllur fyrir rekstri húsnæðisins. Í júlíbyrjun mun starfsemi leikhússins flytja úr húsnæðinu sem kemur til með að verða geymsluhúsnæði fyrir Félagsbústaði Reykjavíkurborgar. Möguleikhúsið mun þó ekki hætta starfsemi heldur starfa áfram sem ferðaleikhús án eigin húsnæðis. Möguleikhúsið opnaði leikhúsið við Hlemm í júní 1994 og hefur því haft þar aðsetur í 14 ár. Leikhúsið hefur frá upphafi verið helgað sýningum fyrir börn og unglinga og er fyrsta leiksviðið hér á landi sem eingöngu er ætlað í þeim tilgangi. Það hlýtur því að teljast til nokkurra tíðinda að nú sé að því komið að loka þurfi Möguleikhúsinu við Hlemm, en vonandi kemur sá tími síðar að stuðningur finnist til að tryggja rekstur sérstaks leikhúss fyrir yngstu kynslóðina á Íslandi.

Tólfti dagur námskeiðs

12. dagur - 25. júní

Heldur er nú farið að færast fjör í leikinn. Við fórum að æfa í þeim búningum sem komnir eru í morgun og var mjög gaman að sjá hversu góð áhrif það hafði ákrakkana. Norrænu goðin og þursarnir lifnuðu við á sviðinu eitt af öðru. Renndum einu sinni í gegnum allt fyrir hádegið og svo aftur eftir hádegið. Allir stóðu sig með eindæmum vel og allt farið að stefna í mjög skemmtilega sýningu á föstudaginn.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband