Færsluflokkur: Menning og listir
3.12.2008 | 16:06
Vel heppnaðri leikferð um Norðurland lokið
25.11.2008 | 17:24
Möguleikhúsið í leikferð um norðurland
Dagana 24. - 28. nóvember verður Möguleikhúsið á ferð um Norðurland með leiksýninguna Hvar er Stekkjarstaur? Sýnt verður í grunn- og leikskólum á Blönduósi, Sauðárkróki, Siglufirði og Akureyri, en leikferðir sem þessi eru einn veigamesti þátturinn í starfi Möguleikhússins.
Leikritið, sem er eftir Pétur Eggerz, var fyrst sýnt fyrir jólin 1996, en hefur síðan verið á dagskrá Möguleikhússins með reglulegu millibili og notið mikilla vinsælda. Eru sýningar á verkinu orðnar rúmlega 200 talsins.
Í leikritinu segir frá því þegar það gerist eitt sinn að jólasveinninn Stekkjarstaur skilar sér ekki til byggða á tilsettum tíma þann 12. desember. Þegar aðalpersóna leikritsins, Halla, fer að athuga hvernig á því standi kemst hún að því að jólasveinunum er orðið svo illa við allan isinn og þysinn í mannheimum að þeir hafa ákveðið að hætta að fara til byggða um jólin. Spurningin er hvort Höllu takist að fá þá til að skipta um skoðun.
Tveir leikarar taka þátt í sýningunni, en það eru þau Alda Arnardóttir og Pétur Eggerz. Leikstjóri er Pétur Eggerz en leikmynd og búningar voru unnin í samvinnu leikhópsins og Helgu Rúnar Pálsdóttur. Að leikferinni um norðurland lokinni hefjast sýningar á höfuðborgarsvæðinu.
10.11.2008 | 13:47
Aðventa á slóðum Fjalla-Bensa
28.10.2008 | 16:17
Sýningar að hefjast á Aðventu
Möguleikhúsið er nú að hefja að nýju sýningar á einleiknum Aðventu, sem byggir á samnefndri sögu Gunnars Gunnarssonar. Auk þess að bjóða sýninguna nemendum í framahaldsskólum og unglingadeildum grunnskóla bryddar leikhúsið nú upp á þeirri nýbreytni að bjóða upp á sérstakar sýningar fyrir eldri borgara. Er þá bæði um það að ræða að komið sé með sýninguna á þá staði sem óska eftir sýningum, en einnig er boðið upp á sýningar í Iðnó, sem sérstaklega eru ætlaðar eldri borgurum. Hefur þessi nýjung mælst vel fyrir og er nú þegar búið að bóka nokkrar sýningar undir þessum formerkjum.
Í sýningunni er sagt frá svaðilförum vinnumannsins Benedikts sem fer til fjalla í vetraríki aðventunnar að leita þess fjár sem eftir varð er smalað var um haustið. Það er köllun hans að koma þessum villuráfandi sauðum í öruggt skjól fyrir hátíðirnar. Söguna byggir höfundur á frásögnum af frægum svaðilförum Benedikts Sigurjónssonar, öðru nafni Fjalla-Bensa, á Mývatnsöræfum og einkum þó eftirleitarferð sem hann fór í desember 1925. Þetta er klassísk saga um náungakærleika og fórnfýsi.
Leikari í sýningunni er Pétur Eggerz, leikstjóri og höfundur handrits er Alda Arnardóttir, tónlist samdi Kristján Guðjónsson en Messíana Tómasdóttir er höfundur leikmyndar og búninga.
Menning og listir | Breytt s.d. kl. 16:19 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
15.10.2008 | 13:48
Möguleikhúsið heldur áfram leikferðum um landið
Í dag, miðvikudaginn 15. október, hófst leikferð Möguleikhússins um norðurland með leiksýninguna Langafi prakkari, sem byggir á sögum Sigrúnar Eldjárns. Ferðin hófst með sýningu á Hvammstanga, en á fimmtudag og föstudag verða sýningar á Akureyri og nágrenni. Þetta er í annað sinn á árinu sem Langafi prakkari heimsækir norðurland, en leikhúsið var einnig á ferð með sýninguna þar s.l. vor. Sýningar á verkinu eru nú orðnar rúmlega 230 talsins og er sýningin sú vinsælasta í rúmlega 18 ára sögu Möguleikhússins. Leikarar í sýningunni eru Bjarni Ingvarsson og Aino Freyja Järvelä, en leikstjóri og höfundur leikgerðar er Pétur Eggerz.
12.10.2008 | 13:42
Sæmundur fróði heimsótti austurland á krepputímum.
Möguleikhúsið hefur nú lokið leikferð um austurland með leiksýninguna Sæmund fróða. Sýndar voru alls átta sýningar á fjórum dögum. Það setti óneitanlega svip sinn á ferðina, sem farin var dagana 7. - 10. október, að hún var farin í skugga þeirra dramatísku atburða sem dunið hafa á þjóðinni. Var mjög ánægjulegt fyrir leikhópinn að finna með hversu mikilli jákvæðni skólafólk um land allt tók á málum og að lífið í skólunum gekk sinn vanagang. Það var okkur líka áminning um nauðsyn þess að halda áfram öflugu lista- og menningarstarfi hér á þessum erfiðu tímum, treysta þann grunn sem við höfum og leyfa okkur um leið að leiða hugann um stund frá vandamálum dagsins. Þá er ekki síður mikilvægt að yngsta kynslóðin finni að lífið haldi áfram að ganga sinn vanagang og við gefum okkur tíma til að sinna þeim.
Leikferðin með Sæmund hófst með sýningu á Kirkjubæjarklaustri þriðjudaginn 7. október. Þaðan lá leiðin til Djúpavogs þar sem sýnt var að morgni 8. október. Að sýningunni lokinni var ekið sem leið lá um Öxi til Eiða þar sem sýnt var eftir hádegið fyrir börn í grunnskóla Egilsstaða og Eiða. 9. október var sýnt í Fellaskóla í Fellabæ og Brúarásskóla. Síðasta dag ferðarinnar, föstudaginn 10. október voru þrjár sýningar, í Vopnafjarðarsóla, á Þórshöfn og Raufarhöfn. Allstaðar voru viðtökur mjög góðar og kunnum við skólafólki og börnum bestu þakkir.
26.9.2008 | 15:37
Möguleikhúsinu bætist liðsauki
Möguleikhúsinu hefur nú bæst liðsauki, en Anna Brynja Baldursdóttir hefur hafið hlutastarf hjá okkur. Anna Brynja er að vinna að undirbúningi sérstaks þróunarverkefnis til að fara með í skóla landsins, sem vonir standa til að hægt verði að hrinda í framkvæmd haustið 2009. Auk þess mun hún fara með hlutverk í leiksýningunni Alli Nalli og tunglið, sem frumsýnd verður í mars. Anna Brynja lauk BA prófi í leiklist frá Rose Bruford Collage í London 2005 og bætti að því loknu við sig kennaranámi við Listaháskóla Íslands með sérstaka áherslu á leiklist. Við bjóðum Önnu Brynju hjartanlega velkomna í hópinn.
22.9.2008 | 13:04
Draugagangur Möguleikhússins í Norræna húsinu
Alþjóðlega barnabókmenntahátíðin Draugar úti í Mýri fór fram í Norræna húsinu nú um helgina. Þar lásu höfundar frá ýmsum löndum upp úr draugasögum fyrir börn auk þess sem kynnt var ný bók með draugalegum smásögum, At, sem er afrakstur verðlaunasamkeppni sem haldin var. Til að auka á draugalega stemmingu voru leikarar Möguleikhússins, þau Alda Arnardóttir og Pétur Eggerz, fengin til að bregða sér í hlutverk rammíslenskra drauga og hrella hátíðargesti. Tókst það með miklum ágætum. Nánari upplýsingar um bókmenntahátíðina er að finna á slóðinni www.myrin.is
Menning og listir | Breytt s.d. kl. 13:13 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
18.9.2008 | 10:13
Leikferð um Vestfirði að ljúka
16.9.2008 | 12:57
Pétur Eggerz í Einleiknu viðtali
Á heimasíðu einleikjahátíðarinnar Act Alone, sem haldin er á Ísafirði, er margt fróðlegt efni að finna. Frumherjinn Elfar Logi Hannesson, sem er maðurinn á bakvið Act Alone, tók nýlega viðtal við Pétur Eggerz, forsprakka Möguleikhússins, sem hann birtir þar á síðunni undir liðnum Einleikin viðtöl. Pétur var einmitt á hátíðinni nú í sumar og flutti þar einleikinn Aðventu. Viðtalið er að finna á slóðinni http://www.actalone.net/index.phtml?p=act_pages&id=39&m=39