Skyrgámur eða Skyrjarmur?

SkyrgámurSkyrjarmur, sá áttundi, eða er það kannski Skyrgámur? Sjálfur segir hann að sér standi á sama hort það sé, bara ef í nafninu sé að finna nóg af skyri. Hann mætti í Þjóðminjasafnið í morgun og hitti þar fyrir hóp af börnum. Hann sagði þeim frá ævintýrum sem hann lenti í forðum daga þegar hann stakk sér á bólakaf í skyrámu til að fela sig. Þegar hann reis upp úr því, þakinn hvítu skyrinu, hélt fólkið á bænum að hann væri draugur! Verra þykir honum þó að í dag er ekki hægt að fá skyr nema í pinkulitlum dósum.

Hurðaskellir mætti með látum

Hurðaskellir Það gustaði af Hurðaskelli þegar hann mætti í Þjóðminjasafnið í morgun. Skellti hurðum með látum um leið og hann gekk í salinn. Hann sagði börnunum að í hans eyrum hljómuðu hurðaskellir eins og fegursta tónlist. Þess vegna væri hann alltaf að skella hurðum af öllum stærðum og gerðum. Ekki þótti honum þó verra ef hann náði að gera fólki svolítið bilt við í leiðinni. Áður en hann kvaddi fékk hann að gjöf sérsmíðaða ferðahurðaskellihurð, en það er lítil hurð sem hann getur tekið með sér hvert sem er og skellt að vild.

Askasleikir notar vitið í askana

AskasleikirÞað voru um 300 börn sem heilsuðu upp á jólasveininn Askasleiki er hann arkaði í Þjóðminjasafnið klukkan ellefu í morgun. Að vanda var Guðni Franzson, tónlistarmaður, þar líka sem sérlegur móttökufulltrúi. Kór barna úr Sæmundarskóla söng vísurnar um jólasveinana. Þegar salurinn söng fullum hálsi erindið um Askasleiki birtist hann í eigin persónu. Krakkarnir fengu að hafhenda sveininum ask frá þjóðminjasafninu, en sú gjöf gladdi hann mjög. Sást síðast til hans á leið út úr safninu í leit að mat í askinn. Möguleikhúsið þakkar Askasleiki ánægjuleg kynni, en á morgun er komið að háværasta jólasveininum, sjálfum Hurðaskelli.

Pottþéttur Pottasleikir

IMG_7810Það var troðfullur salur af leik- og grunnskólabörnum sem tók á móti Pottasleiki í Þjóðminjasafninu í morgun. Hann sagði þeim frá ævintýrum sem hann lenti í þegar hann fór að sleikja pott á austurlenskum veitingastað. Það var svo sterkt bragð af þeim innansleikjum að hann hélt að það væri að kvikna í sér. Svo fór hann líka í sundlaugarnar því þar hafði hann heyrt af svo góðum heitum pottum. Þeir reyndust þegar til kom fullir af fólki. Pottasleikir fékk að skilnaði vænan gamlan pottpott að gjöf frá Þjóðminjasafninu, en þannig pottar voru notaðir í gömlu hlóðaeldhúsunum.

Þvörusleikir er mættur

ÞvörusleikirFjórði jólasveinninn, hann Þvörusleikir, mætti í Þjóðminjasafnið klukkan ellefu í morgun. Það voru um 300 börn sem tóku á móti honum. Uppáhald Þvörusleikis eru þvörurnar sem notaðar voru til að hreinsa potta að innan í gamla daga. Þær sjást varla lengur og því var Þvörusleikir einstaklega glaður þegar Þjóðminjasafnið gaf honum glænýja þvöru sem hann getur tekið með sér hvert sem er og notað til að skara potta og pönnur og ná sér í skófir. Möguleikhúsið þakkar Þvörusleiki og börnunum fyrir ánægjulega stund og við víðum spennt eftir að hitta Pottasleiki á morgun.

Stubburinn hann Stúfur

StúfurÞá er stubburinn hann Stúfur kominn til byggða. Það var myndarlegur hópur sem tók á móti honum í Þjóðminjasafninu. Heldur var Stúfur lúinn er hann mætti á svæðið, enda þurft að taka þrisvar sinnum fleiri skref á leiðinni til byggða en hinir skreflöngu bræður hans. Hann fræddi börnin á því að sitt uppáhald hefði ætíð verið að skafa það sem brunnið hefði fast við steikarpönnur. Því var hann einnig nefndur Pönnuskefill. Möguleikhúsið þakkar Stúfi fyrir komuna og hlakkar til að hitta bróður hans, Þvörusleiki, sem næstur kemur til byggða.

Giljagaur var annar

GiljagaurJólasveinninn Giljagaur mætti í Þjóðminjasafnið klukka ellefu í morgun og var þar fagnað af 300 manns, bæði börnum og fullorðnum. Var ekki annað að sjá en kappinn kynni vel að meta þessar höfðinglegu móttökur. Var sénstaklega gaman að sjá kynslóðirnar saman komnar, allt frá ömmum og öfum niður í ungabörn. Giljagaur fræddi viðstadda um hvernig hann hefði á árum áður sætt færis að fiska froðuna ofan af mjólkurfötunum eftir mjaltir. Var hann því stundum nefndur Froðusleikir. En í hinu mjaltavélvædda bændasamfélagi nútímans verður sífellt erfiðara fyrir hann að nálgast mjólkurfroðuna. Möguleikhúsið þakkar Giljagaur fyrir komuna og hlakkar til að taka á móti Stúf bróður hans á sama tíma á morgun.

Stekkjarstaur kominn til byggða

Stekkjarstaur Þá er fyrsti jólasveinninn, Stekkjarstaur, kominn til byggða. Hann mætti í Þjóðminjasafnið klukkan ellefu í morgun og hitti þar fyrir ein 200 börn sem komin voru til að heilsa upp á karlinn. Þar var líka tónlistarmaðurinn Guðni Franzson sem söng og spilaði af sinni alkunnu list með krökkunum. Stekkjarstaur fræddi börnin um það af hverju hann er hlaut nafn sitt, en það mun vera af því dregið er hann laumaðist að stekknum þar sem ærnar voru mjólkaðar forðum daga. Þar stóð hann eins og staur svo enginn tæki eftir honum, en sætti svo færis að skjótast að ánum og sjúga mjólkursopa úr spenunum þegar enginn sá til. En í dag verður hann að láta sér nægja kúamjólk úr fernum eins og við hin. Á morgun er von á Giljagaur bróður hans og mun Möguleikhúsið aðstoða við að taka á móti honum á Þjóðminjasafninu líkt og Stekkjarstaur í dag.

Jóladagskráin hafin í Þjóðminjasafninu

Grýla, Leppaludi og börnHin árlega jóladagskrá Þjóðminjasafns Íslands hófst sunnudaginn 7. desember með opnun jólasýningarinnar Sérkenni sveinanna og heimsókn skötuhjúanna Grýlu og Leppalúða ásamt jólakettinum. 
Fjölskyldur geta farið í hina sígildu ratleiki Þjóðminjasafnsins. Jólaleikurinn heitir Hvar er jólakötturinn? og snýst um að finna litlu jólakettina sem hafa verið faldir innan um safngripina! Fleiri fjölskylduleikir eru í boði.

Ókeypis er inn á dagskrána á 1. hæð. Safnbúðin er full af þjóðlegum leikföngum, vönduðum minjagripum og bókum og kaffið í veitingastofunni Kaffitári er óviðjafnanlegt.

Þetta er þó aðeins upphafið á hinni líflegu jóladagskrá Þjóðminjasafnsins. Jólasveinarnis leggja af stað af fjöllum og sá fyrsti er væntanlegur klukkan 11 í Þjóðminjasafnið föstudaginn 12. desember. Síðan þramma þessir þjóðlegu náungar til byggða einn af öðrum og koma í Þjóðminjasafnið klukkan 11 á hverjum morgni fram að jólum. Á aðfangadag verður opið milli 11 og 12 til að taka á móti Kertasníki sem kemur síðastur.

Hin þjóðlega jóladagskrá Þjóðminjasafnsins hefur áunnið sér hefð og með árunum eignast allmarga aðdáendur í hópi yngra fólksins. Líkt og undanfarin þrettán ár aðstoðar Möguleikhúsið safnið við að taka á móti þeim jólasveinunum í desember.


Aðventa Gunnars Gunnarssonar sýnd í Iðnó

Pétur Eggerz í AðventuMöguleikhúsið sýnir einleikinn Aðventu, sem byggir á samnefndri sögu Gunnars Gunnarssonar, í Iðnó nú á sunnudagskvöldið 7. desember kl. 20:00. Sýningin var frumsýnd á síðasta leikári, en hefur gert víðreist undanafarnar vikur, verið sýnd í framhaldsskólum, fyrir félagsstarf eldri borgara, á dvalarheimilum og víðar. Þá er skemmst að minnast leikferðar austur á Fljótsdalshérað þar sem sýnt var í samvinnu við Stofnun Gunnars Gunnarssonar að Skriðuklaustri.

Sýningin í Iðnó er eina sýningin sem opin er almenningi að þessu sinni og því um að gera fyrir áhugafólk um þessa klassísku sögu að missa ekki af tækifærinu upplifa hrakfarir Fjalla-Bensa á leiksviðinu. Það er Pétur Eggerz sem stendur á sviðinu, leikstjóri og höfundur leikgerðar er Alda Arnardóttir, tónlist er eftir Kristján Guðjónsson, en leikmynd og búninga hannaði Messíana Tómasdóttir. Hægt er að panta miða í miðasölu Iðnó, s. 562 9700


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband