Jólasveinarnir koma í Þjóðminjasafnið

agiljagaur Þá eru íslensku jólasveinarnir farinr að tínast í hús í Þjóðminjasafninu einn af öðrum. Stekkjarstaur kom fyrstur þann 12. desember og síðan koma bræður hans hvera af öðrum. Þeir koma fram í Þjóðminjasafninu alla daga til jóla kl. 11:00. Tólfta árið í röð aðstoðar Möguleikhúsið Þjóðminjasafnið við að taka á móti sveinunum ásamt tónlistarmönnunum Guðna Franzsyni og Valgeiri Skagfjörð. Aðgangur að dagskrá jólasveinanna í safninu er ókeypis meðan húsrúm leyfir.

Sýningar hafnar á Hvar er Stekkjarstaur?

Hvar er Stekkjarstaur?Fyrstu sýningarnar á jólaleikritinu Hvar er Stekkjarstaur? eftir Pétur Eggerz fyrir þessi jólin fóru fram í dag, 3. desember. Sýnt var í leikskólunum Kópahvoli og Austurborg, sem báðir eru fastakúnnar á sýningar leikhússins. Það voru Alda Arnardóttir og Pétur Eggerz sem fóru með hlutverkin í sýningunni í dag, en þau munu skiptast á við Bjarna Ingvarsson og Aino Freyju Järvelä að leika sýninguna til jóla. Búið er að bóka 23 sýningar á verkinu og enn eru fleiri að bætast við. Leikritið var fyrst sýnt fyrir jólin 1996 en þá voru það Bjarni Ingvarsson og Alda Arnardóttir sem fóru með hlutverkin. Verkið var síðast leikið fyrir jólin 2003. Í tilefni af enduruppsetningu verksins nú var Helga Rún Pálsdóttir leikmynda- og búningahönnuður fengin til að endurhanna að miklu leyti allt útlit sýningarinnar. Flestar þær sýningar sem bókaðar eru á Hvar er Stekkjarstaur? eru í leik- og grunnskólum, en sunnudaginn 9. desembar verður sýning í Möguleikhúsinu við Hlemm sem opin  er almenningi.

Leikhópurinn kominn suður

Hvar er Stekkjarstaur?Þá er leikhópurinn kominn heilu og höldnu heim úr leikferðinni um norðurland. Ókum suður á föstudag í leiðindaverðri en án vandræða. Í dag, sunnudag, voru svo tvær sýningar á Smiði jólasveinanna í Möguleikhúsinu. Fullt af fólki og allir skemmtu sér hið besta. Á mánudag hefjast síðan sýningar á hinu jólaleikritinu okkar, Hvar er Stekkjarstaur? Hér á myndinni má sjá Öldu Arnardóttur og Pétur Eggerz í hlutverkum sínum í því.

Veður hefur áhrif á leikferð um Norðurland

Alda og Aino baksviðsÞað er ekki alltaf tekið út með sældinni að vera á leikferð um Ísland að vetrarlagi. Síðasta dag leikferðar okkar um norðurland brast á með leiðindaveðri um land allt. Okkur tókst að sýna þær tvær sýningar sem áætlaðar voru í Eyjafirðinum, en er halda átti til Siglufjarðar þótti ekki þorandi að aka þá leið með Möguleikhúskerruna góðu aftan í bílnum. Komið óveður og fljúgandi hálka á vegunum. Þegar þetta er skrifað situr leikhópurinn því á kaffihúsi á Akureyri og bíður þess að veður hafi lægt svo að óhætt þyki að halda suður yfir heiðar með fólk og leikmynd. Næstu sýningar áætlaðar í Möguleikhúsinu á sunnudag.


Leikferð um norðurland gengur vel

Bjarni og Alda bera leikmynd inn í skólann á DAlvíkMöguleikhúsið er um þessar mundir á norðurlandi að sýna leikritið Smiður jólasveinanna. Þegar þetta er skrifað er leikferðin rúmlega hálfnuð. Búið er að sýna fimm sýningar á Akureyri, eina á Laugum í Reykjadal og eina á Dalvík. Móttökur hafa allstaðar verið með eindæmum góðar og gaman að hitta börnin. Veðrið hefur líka leikið við okkur, sem ekki er sjálfgefið á þessum árstíma. Eftir er að sýna eina sýningu á Svalbarðseyrir, eina á Akureyri, eina í Hrafnagili og loks eina á Siglufirði. En þó mikið hafi verið af sýningum hefur leikhópnum þó einnig gefist dálítill frítími, sem m.a. var nýttur til að sjá æfingu á leikritinu "Þú ert nú meiri jólasveinninn" sem er einleikur Stúfs Leppalúðasonar, sýndur í samvinnu við Leikfélag Akureyrar. Þar koma við sögu tvær góðar vinkonur okkar í Möguleikhúsinu þær Katrín Þorvaldsdóttir, leikmyndahönnuður, og Ágústa Skúladóttir, leikstjóri, en þær unnu m.a. með Möguleikhúsinu sýninguna Landið vifra.

Möguleikhúsið í leikferð um norðurland með Smið jólasveinanna

Smiður jólasveinannaDagana 26. – 30. nóvember verður Möguleikhúsið á leikferð um norðurland með jólasýninguna Smiður jólasveinanna eftir Pétur Eggerz. Sýndar verða alls 11 sýningar í leik og grunnskólum. Að leikferðinni lokinni verður sýningum síðan fram haldið á höfuðborgarsvæðinu og verður opin sýning í Möguleikhúsinu við Hlemm sunnudaginn 2. desember kl. 14:00. Í leikritinu segir frá Völundi gamla, sem er smiðurinn sem sér um að smíða allar gjafirnar sem jólasveinarnir færa börnunum á jólunum. Eftir að síðustu sveinarnir eru farnir til byggða er einmanalegt í kotinu. Þá birtast óvæntir gestir, tröllabörnin Þusa og Þrasi sem aldrei hafa heyrt talað um jólin og sjálfur jólakötturinn, sem þorir ekki lengur að fara til byggða. Völundur tekur vel á móti þeim og saman rifja þau upp söguna af fæðingu Jesú. Þeim þykir sagan svo skemmtileg að þau ákveða að leika hana saman. Smiður jólasveinanna var fyrst sýndur fyrir jólin 1992 og naut þá þegar mikilla vinsælda. Leikritið var síðan gefið út á geisladiski fyrir jólin 1993. Leikstjóri sýningarinnar er Pétur Eggerz, sem einnig hannaði leikmynd ásamt Bjarna Ingvarssyni, tónlist gerði Ingvi Þór Kormáksson og búningahönnuður Helga Rún Pálsdóttir. Leikarar eru Bjarni Ingvarsson, Aino Freyja Järvelä, Alda Arnardóttir og Pétur Eggerz.

Jólatörnin að hefjast

Völundur og Kertasníkir Desember er ætíð mánuður mikilla anna hjá okkur í Möguleikhúsinu og þetta ár verður svo sannarlega engin undantekning á því. Sýningar á leikritinu um Smið jólasveinanna eru að hefjast og verður sú fyrsta í Ársafni sunnudaginn 25. nóvember kl. 14:00. Alls er búið að bóka 22 sýningar á Smiðnum til jóla og 22 að auki á leiksýningunni Hvar er Stekkjarstaur? Því til viðbótar mun leikhópur Möguleikhússins aðstoða við að taka á móti íslensku jólasveinunum í Þjóðminjasafninu er nær dregur jólum. Það er því lítil hætta á að leikararnir þurfi að láta sér leiðast til jóla.

Stekkjarstaur snýr aftur

Bjarni Ingvarsson vinnur að leikmyndUndirbúningur er nú í fullum gangi fyrir sýningar á jólaleikritum Möguleikhússins. Sýningar eru að hefjast að nýju á leikritinu Hvar er Stekkjarstaur? eftir nokkurra ára hlé. Af því tilefni hefur allt útlit sýningarinnar verið tekið til gagngerðrar endurskoðunar og má því með sanni segja að Stekkjarstaur hafi fengið andlitslyftingu er hann birtist áhorfendum nú um mánaðarmótin. Það er Helga Rún Pálsdóttir sem hefur yfirumsjón með endurnýjun á leikmyndum og búningum í sýningunni, en hún hefur oft áður komið að hönnun sýninga í Möguleikhúsinu, má þar t.d. nefna Hatt og Fatt og Smið jólasveinanna. Á meðfylgjandi mynd má sjá Bjarna Ingvarsson hamast í leikmyndagerðinni, en leikarar í sýningunni eru Pétur Eggerz og Alda Arnardóttir.

Steingerðar flórur á Hrafnaþingi

Annað Hrafnaþing Náttúrufræðistofnunar Íslands verður haldið í Möguleikhúsinu við Hlemm miðvikudaginn 21. nóvember. Hrafnaþingin eru opin fræðsluerindi sem haldin eru annan hvern miðvikudag. Þau hefjast kl. 12:15 og er lokið kl. 13:00

Yfirskrift Hrafnaþingsins 21. nóvember er Steingerðar flórur á Íslandi.

Friðgeir Grímsson,jarðfræðingur á Jarðvísindastofnun Háskólans og gestarannsakandi á NÍ, flytur erindi þar sem hann lýsir fornum gróðursamfélögum, frá 15 til 6 milljónum árum síðan, og breytingum sem urðu á þeim á míósen tíma. Þá mun Friðgeir gera grein fyrir nýjum niðurstöðum og yfirstandandi rannsóknum sínum á yngri gróðursamfélögum í steingerðri flóru landsins.

Nánari umfjöllun um erindi Friðgeirs er á heimasíðu Náttúrfræðistofnunar á slóðinni http://ni.is/midlun-og-thjonusta/hrafnathing/greinar//nr/678, en dagskrá Hrafnaþings í vetur má finna á slóðinni http://ni.is/midlun-og-thjonusta/hrafnathing/


Jólin, jólin ...

Völundur og jólakötturinnNú styttist í jólin og því fylgir að leikhópur Möguleikhússins fer að huga að jólasýningunum. Í ár býður leikhúsið upp á tvær jólasýningar, Hvar er Stekkjarstaur? og Smiður jólasveinanna. Sýningin Hvar er Stekkjarstaur er nú tekin upp að nýju eftir nokkurra ára hlé og fær af því tilefni allnokkra andlitslyftingu. Búningahönnuðurinn Helga Rún Pálsdóttir mun hanna nýja búninga á leikarana og einnig vera leikhópnum innan handar við að endurvinna leikmyndina. Það má því eiga von á að sýningin hafi tekið nokkrum útlitsbreytingum er sýningar hefjast í lok mánaðarins. Mikil eftirspurn er eftir jólasýningunum og því um að gera fyrir þá hópa sem vilja fá til sín sýningu að draga það ekki að hafa samband og panta sýningu.

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband