31.1.2008 | 22:52
Möguleikhúsið slegið af?
Menning og listir | Breytt 1.2.2008 kl. 09:28 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
26.1.2008 | 13:43
Þurfa listamenn engan uppsagnarfrest?
Enn sitjum við í Möguleikhúsinu og bíðum þess að heyra frá Menntamálaráðuneytinu hvort við hljótum einhvern fjárstuðning þaðan þetta árið. Fengum í gær bréf frá úthlutunarnefnd listamannalauna þar sem okkur var tilkynnt að leikhúsið fengi enga starfslaunamánuði þetta árið. Hingað til hefur það haldist að mestu leyti í hendur að þau leikhús sem fá starfslaunamánuði fá einnig styrki. Þetta gefur því ekki tilefni til bjartsýni. Áður erum við búin að fá synjun við umsókn okkar um styrki frá Barnamenningarsjóði og Menningarsjóði félagsheimila (þangað var sótt um stuðning vegna leikferða). Þá hefur fjárlaganefnd Alþingis einnig synjað okkur um stuðning þetta árið. Eini opinberi stuðningurinn sem við höfum fastan í hendi þetta árið er starfssamningur við Reykjavíkurborg, en þar fáum við 3 milljónir í ár. Samningurinn var endurnýjaður á síðasta ári og þá skorinn niður um 25% frá því sem fyrir var.
Þetta er sá veruleiki sem við sem stöndum í rekstri sjálfstæðra leikhúsa á Íslandi þurfum að búa við, stöðugt óöryggi frá degi til dags. Möguleikhúsið hefur nú verið rekið í tæp átján ár. Frá árinu 1994 hefur það hlotið stuðning árlega frá Menntamálaráðuneytinu í formi starfslauna og/eða beinna fjárveitinga. Þetta hefur orðið til þess að unnt hefur verið að halda uppi samfelldri starfsemi í leikhúsinu og þeir sem að því standa hafa getað sinnt leikhúsinu í fullu starfi. Þetta veitir þó leikhúsinu enga tryggingu fyrir því að ekki sé hægt að ákveða án fyrirvara að leikhúsið fái engan stuðning frá Menntamálaráðuneytinu. Það er í valdi ráðherra að taka ákvörðun að fengnu áliti leiklistarráðs um hvort leikhúsið skuli fá stuðning, og þar með grundvöll til áframhaldandi starfs. Ekki þarf að hafa samráð við aðstandendur leikhússins áður en ákvörðunin er tekin, ekki þarf að gefa út viðvörun af neinu tagi eða gefa leikhúsfólkinu neinn aðlögunartíma að því að grundvelli geti verið kippt undan starfi þeirra og þar með lífsafkomu. Hér er enginn uppsagnarfrestur og enginn á rétt á biðlaunum vegna skyndilegra pólitískra ákvarðana. Það eru engar vinnureglur sem kveða á um það að áratuga starf og stuðningur opinberra aðila skapi leikhúsum, eða þeim sem þar starfa, á neinn hátt sérstöðu eða auki líkur á að gerðir séu samstarfssamningar til lengri tíma.
Það hlýtur að vera tímabært að þessu starfsumhverfi sé breytt þannig að þeir listamenn sem eytt hafa drjúgum hluta af sinni starfsævi í að byggja upp starfsemi sem sýnt hefur sig að mikil þörf er fyrir þurfi ekki að búa við það til æviloka að vita ekki hvort þeir geti haldið áfram sínu starfi á morgun, þurfi sífellt að búa við ótta um að missa starfið og geta átt í erfiðleikum með að sjá sér og sínum farborða. Það er á engan hátt réttlætanlegt að listamenn þurfi að búa við það alla sína starfsævi að þeir eigi engan rétt á uppsagnarfresti eða samráði áður en fótunum er kippt undan lífsafkomu þeirra.
23.1.2008 | 12:56
200. sýning á Langafa prakkara
Leikritið Langafi prakkari, sem byggir á sögum Sigrúnar Eldjárns, Langafi drullumallar og Langafi prakkari, var frumsýnt 14. október 1999 og þá sýnt við miklar vinsældir um þriggja ára skeið. Sýningar voru síðan teknar upp að nýju í janúar á þessu ári og ljóst að vinsældir Langafa og Önnu litlu hafa síst minnkað frá því sem áður var, en það eru þau Aino Freyja Järvelä og Bjarni Ingvarsson sem leika þau skötuhjúin, leikstjóri og höfundur leikgerðar er Pétur Eggerz, búningar eru eftir Katrínu Þorvaldsdóttur og tónlist samdi Vilhjálmur Guðjónsson.
Í leikritinu segir frá lítilli stúlku, Önnu, og langafa hennar. Þó langafi sé blindur og gamall er hann alltaf tilbúinn að taka þátt í einhverjum skemmtilegum uppátækjum með Önnu litlu. Hann passar hana alltaf á daginn þegar pabbi hennar og mamma eru í vinnunni. Þá hefur hann nægan tíma til að sinna henni og þau gera ýmislegt skemmtilegt saman. Þau skoða mannlífið, baka drullukökur, veiða langömmur og fleira. Þetta er enginn venjulegur langafi
Langafi prakkari er þar með komin í hóp allra vinsælustu sýninga Möguleikhússins, en sýningarmetið á sýningin um hinar böldnu systur Snuðru og Tuðru, en sýningar á henni urðu 221 talsins. Nú er bara að sjá hvort Langafa takist að slá það sýningarmet.
16.1.2008 | 12:12
Hugleikur í Möguleikhúsinu
Leikfélagið Hugleikur frumsýnir leikrtið Útsýni eftir Júlíu Hannam í Möguleikhúsinu við Hlemm laugardaginn 19. janúar kl. 20:00.
Um er að ræða nýtt íslenskt leikverk sem er fyrsta leikrit höfundar í fullri lengd, en Júlía hefur skrifað sjö einþáttunga sem settir hafa verið á svið hjá Hugleik. Þeirra á meðal er Í öruggum heimi sem valin var besta sýningin á stuttverkahátíðinni Margt smátt í Borgarleikhúsinu vorið 2006 af dómnefnd sem skipuð var Þorvaldi Þorsteinssyni og Þorsteini Bachmann.
Útsýni fjallar um samskipti tveggja hjóna, þar sem eiginmennirnir eru æskuvinir. Verkið er í tveimur þáttum og gerast þeir á heimili hjónanna Björns og Svövu með um árs millibili, en í báðum þáttum taka þau á móti vinahjónum sínum, Hlyni og Elínu. Í verkinu er fylgst með þeim umskiptum sem verða í lífi persónanna fjögurra, bæði vegna breytinga á félagslegri stöðu sem og í innbyrðis samskiptum. Þannig fjallar verkið um þanþol sannrar vináttu, traustið sem ríkir milli einstaklinga í hjónabandi, öfundsýki og sjálfsvirðingu.
Leikstjórn Útsýnis er í höndum gamalkunnra Hugleikara, þeirra Rúnars Lund og Silju Bjarkar Huldudóttur, en þau hafa bæði starfað með leikfélaginu í yfir tuttugu ár. Hlutverkin fjögur skipa Elísabet Indra Ragnarsdóttir, Guðrún Eysteinsdóttir, Sigurður H. Pálsson og Þráinn Sigvaldason. Höfundur frumsaminnar tónlistar í sýningunni er Gunnar Ben.
Hugleikur var stofnaður árið 1984 og hefur um árabil verið einn virkasti áhugaleikhópur landsins. Hann hefur þá sérstöðu meðal íslenskra leikfélaga að leikverkin eru öll samin af félagsmönnum. Umfjöllunarefni leikritanna eru alfarið sprottin úr íslensku þjóðlífi. Oft á tíðum hefur verið leitað fanga í þjóðsagnararfinum, í sögu þjóðarinnar og gullaldarbókmenntunum, en viðfangsefni samtímans hafa á umliðnum misserum fengið aukið vægi. Söngur og tónlist hafa jafnan sett svip sinn á sýningar hópsins.
Hugleikur hlaut sérstaka viðurkenningu menntamálaráðuneytisins á degi íslenskrar tungu 16. nóvember árið 2006 fyrir stuðning við íslenska tungu.Það sama ár gerði Reykjavíkurborg þriggja ára samstarfssamning við leikfélagið.
Útsýni er klukkustundarlöng sýning og leikin án hlés.
Nánari upplýsingar um sýninguna er að finna á heimasíðu Hugleiks http://www.hugleikur.is/
14.1.2008 | 12:04
Jólum lokið og Aðventa gengur í garð
Þó jólunum sé lokið má segja að nú gangi Aðventa í garð í Möguleikhúsinu. Um þessar mundir eru að hefjast æfingar á nýrri sýningu sem byggir á hinni kunnu sögu, Aðventu, eftir Gunnar Gunnarsson. Hér er um að ræða einleik í formi frásagnarleikhúss sem frumsýndur verður í mars. Aðventa er án efa vinsælasta saga Gunnars Gunnarssonar og er enn gefin út í stórum upplögum víða um lönd.
Vinnumaðurinn Benedikt fer til fjalla í vetraríki aðventunnar að leita þess fjár sem eftir varð er smalað var um haustið. Það er köllun hans að koma þessum villuráfandi sauðum í öruggt skjól fyrir hátíðirnar. Þetta er klassísk saga um náungakærleika og fórnfýsi.
Leikstjóri sýningarinnar og höfundur leikgerðar er Alda Arnardóttir, leikmynd og búninga hannar Messíana Tómasdóttir, Kristján Guðjónsson sér um tónlist og hljóðmynd, en á sviðinu stendur Pétur Eggerz.
4.1.2008 | 11:17
Gleðilegt ár!
Möguleikhúsið óskar landsmönnum öllum, háum sem lágum, gleðilegs árs og þakkar góðar móttökur á liðnu ári. Á þessu nýhafna ári fagnar Möguleikhúsið 18 ára afmæli sínu og er því að verða lögráða. Það er þó engu að síður háð stuðningi opinberra aðila og þessa dagana bíðum við spennt eftir fréttum af úthlutun Menntamálaráðuneytisins á fjármunum til handa sjálfstæðum leikhúsum. Krossum fingur og vonum það besta, því án stuðnings þaðan er hætt við að lítið verði úr starfsemi leikhússins.
25.12.2007 | 12:50
Allir komnir til byggða
Þá eru jólasveinarnir allir komnir til byggða. Sá síðasti, Kertasníkir, skilaði sér í Þjóðminjasafnið að morgni aðfangadags við mikinn fögnuð viðstaddra. Möguleikhúsið þakkar jólasveinunum og Þjóðminjasafninu samstarfið á aðventunni, en jóladagskráin í Þjóðminjasafninu nýtur sífellt vaxandi vinsælda. Það voru að jafnaði um 300 áhorfendur sem fögnuðu komu jólasveinanna dag hvern, en suma dagana jafnvel yfir 500 manns.
Jólasýningar Möguleikhússins, Smiður jólasveinanna og Hvar er Stekkjarstaur? nutu einnig mikilla vinsælda fyrir jólin, en sýndar voru 20 sýningar á Smiðnum og 27 á Stekkjarstaur. Þess má geta að síðasta sýningin á Hvar er Stekkjarstaur? verður í Fella- og Hólakirkju á öðrum degi jóla og hefst kl. 14:00.
Möguleikhúsið óskar velunnurum sínum og landsmönnum öllum gleðilegra jóla og þakkar góðar móttökur á árinu sem er að líða!
Menning og listir | Breytt s.d. kl. 12:52 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
18.12.2007 | 10:00
Möguleikhúsið sýnir 200. sýningu á „Hvar er Stekkjarstaur?“
200. sýning á jólaleikriti Möguleikhússins Hvar er Stekkjarstaur? fer fram í leikskólanum Núpi í Kópavogi í dag. Leikritið, sem er eftir Pétur Eggerz, var fyrst sýnt fyrir jólin 1996, en hefur síðan verið á dagskrá Möguleikhússins með reglulegu millibili.
Í leikritinu segir frá því þegar það gerist eitt sinn að jólasveinninn Stekkjarstaur skilar sér ekki til byggða á tilsettum tíma þann 12. desember. Þegar aðalpersóna leikritsins, Halla ,fer að athuga hvernig á því standi kemst hún að því að jólasveinunum er orðið svo illa við allan ysinn og þysinn í mannheimum að þeir hafa ákveðið að hætta að fara til byggða um jólin. Spurningin er hvort Höllu takist að fá þá til að skipta um skoðun.
Tveir leikarar taka þátt í sýningunni, en það eru annarsvegar þau Alda Arnardóttir og Pétur Eggerz og hinsvegar Bjarni Ingvarsson og Aino Freyja Järvelä sem skiptast á að leika hlutverkin. Leikstjóri er Pétur Eggerz en leikmynd og búningar voru unnin í samvinnu leikhópsins og Helgu Rúnar Pálsdóttur.
Sýningum á Hvar er Stekkjarstaur? verður fram haldið á leik- og grunnskólum til jóla, en þess má geta að á annan í jólum kl. 14:00 verður verkið sýnt við fjölskyldumessu í Fella- og Hólakirkju.
16.12.2007 | 13:47
Jólasveinarnir skila sér í hús
Menning og listir | Breytt s.d. kl. 13:50 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
14.12.2007 | 11:07
Stúfur og Stekkjarstaur veðurtepptir
Menning og listir | Breytt s.d. kl. 12:30 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)