Hrafnaþing í Möguleikhúsinu

HrafnaþingÞað eru ekki aðeins leiksýningar sem fram fara í Möguleikhúsinu við Hlemm. Undanfarin ár hefur Náttúrufræðistofnun Íslands staðið fyrir hálfsmánaðarlegum hádegisfyrirlestrum sem fram fara í sal leikhússins. Fundir þessir, sem nefndir eru Hrafnaþing, eru öllum opnir og hafa notið mikilla vinsælda. Nú er að koma að fyrsta Hrafnaþingi þessa vetrar, en það verður miðvikudaginn 7. nóvember og hefst kl. 12:00. Sigurður H. Magnússon, plöntuvistfræðingur á NÍ, flytur erindi þar sem hann gefur stutt yfirlit yfir vöktun á þungmálmum í Evrópu og segir frá helstu niðurstöðum rannsókna hér á landi, einkum í nágrenni iðjuveranna í Straumsvík og á Grundartanga.

Nánari umfjöllun um erindi Sigurðar er á heimasíðu Náttúrfræðistofnunar á slóðinni http://ni.is/midlun-og-thjonusta/hrafnathing/greinar/nr/667, en dagskrá Hrafnaþings í vetur má finna á slóðinni http://ni.is/midlun-og-thjonusta/hrafnathing/


Leikhópur á ferð og flugi

Bjarni Ingvarsson í Höll ævintýranna Það er skjótt skipt á milli sýninga hjá leikhóp Möguleikhússins þessa dagana. Í lok síðustu viku voru sýningar á Langafa prakkara í Reykjavík og á Akranesi,á mánudag var brunað með Landið vifra austur fyrir fjall og sýnt í Hveragerði og í dag, þriðjudag, var sýning á Höll ævintýranna í leikskólanum Fellaborg í Breiðholtinu. Innan skamms hefjast síðan sýningar á jólaleikritunum Hvar er Stekkjarstaur? og Smiði jólasveinanna og hafa þegar verið bókaðar um 30 sýningar á þeim. Það er því ljóst að það verður í nógu að snúast hjá leikhópnum á næstunni.

Landið vifra í Hveragerði

Landið vifra Leikhópur Möguleikhússins er á ferð og flugi þessa dagana. Á laugardag voru sýningar á Langafa prakkara á Akranesi og mánudaginn 5. nóvember eru tvær sýningar á Landinu vifra í Hveragerði. Það eru börn á leikskólum staðarins sem fá að njóta sýninganna sem fara fram í safnaðarheimili kirkjunnar. Sýningin byggir sem kunnugt er á barnaljóðum Þórarins Eldjárns,en leikarar eru Aino Freyja Järvelä, Alda Arnardóttir og Pétur Eggerz.  Sýningarnar í Hveragerði hefjast kl. 10:00 og 11:10 á mánudaginn.

Langafi prakkari á Akranesi

Langafi prakkari Möguleikhúsið sýnir barnaleikritið Langafi prakkari í sal Tónlistarskólans á Akranesi laugardaginn 3. nóvember kl. 14 og 16. Sýningarnar eru hluti svokallaðra Vökudaga á Akranesi og er aðgangur ókeypis og öllum heimill meðan húsrúm leyfir. Vonandi sjá sem flest börn á Akranesi sér fært að mæta og taka mömmu og pabba með. Það eru þau Aino Freyja Järvelä og Bjarni Ingvarsson sem fara með hlutverkin í sýningunni, en hún byggir sem kunnugt er á sögum Sigrúnar Eldjárns.

Andlitslyfting við Hlemm

IMG_0059Möguleikhúsið við Hlemm fékk örlitla andlitslyftingu fyrir skömmu þegar gluggar hússins voru skreyttir stórum myndum úr hinum ýmsu sýningum leikhússins. Geta nú vegfarendur dundað sér við að geta upp á úr hvaða verkum þeir finna myndir í gluggunum og hvaða leikarar þar eru á ferðinni. Þessar nýju merkingar eru hlut af átaki okkar til að gera leikhúsið sýnilegra í samfélaginu og vekja athygli á því sem það hefur upp á að bjóða. Vonandi verður þetta líka til að lífga aðeins upp á umhverfið við Hlemm, sem oft á tíðum vill verða útundan er hugað er að betrumbótum í miðbænum.

Regnboginn hefur stigið sín fyrstu spor í Möguleikhúsinu

Strengjaleikhúsið frumsýndi Spor regnbogans eftir þær Messíönu Tómasdóttur og Karólínu Eiríksdóttur í Möguleikhúsinu á laugardaginn við góðar undirtektir áhorfenda. Í dag, mánudaginn 29. október, voru svo tvær sýningar á verkinu til viðbótar hjá okkur. Áhorfendur voru leikskólabörn og fór ekki á milli mála að það var mikil upplifun fyrir þau að koma í leikhúsið. Nú liggja Spor regnbogans út fyrir veggi Möguleikhússins og verður m.a. sýnt í Norræna húsinu og Gerðubergi. Við í Möguleikhúsinu þökkum Messíönu og strengjaleikurum hennar kærlega fyrir samstarfið og óskum þeim góðs gengis með sýninguna.

Strengjaleikhúsið æfir í Möguleikhúsinu við Hlemm

Spor regnbogansStrengjaleikhúsið er um þessar mundir að æfa flautu- og leikbrúðuverkið Spor regnbogans í húsnæði Möguleikhússins við Hlemm. Í sýningunni, sem ætluð er börnum á leikskólaaldri, endurspeglast tilfinningar, samskipti og litir regnbogans í tónlistinni. Höfundur að handriti og leikbrúðum er Messíana Tómasdóttir, en Guðrún S. Birgisdóttir flautuleikari leikur tónverkið SPOR eftir Karólínu Eiríksdóttur í sýningunni. Á sviðinu eru einnig Aino Freyja Järvelä og Sigríður Sunna Reynisdóttir sem stjórna leikbrúðunum Svaninum og Ófelíu.

Það er okkur í Möguleikhúsinu sérstök ánægja að fá Strengjaleikhúsið til okkar, ekki síst þar sem forsprakki þess, Messíana Tómasdóttir, hefur oft unnið með okkur að sýningum sem höfundur leikmynda og búninga, síðast í sýningunni um Sæmund fróða.

Frumsýning á Sporum regnbogans verður laugardaginn 27. október kl. 14:00, en eftir það verður boðið upp á sérstakar sýningar fyrir leikskóla.


190. sýning á Langafa prakkara

Langafi prakkari190. sýning Möguleikhússins á leikritinu Langafi prakkari verður í Öskjuhlíðarskóla mánudaginn 22. október. Leikritið, sem byggir á sögum Sigrúnar Eldjárns, var frumsýnt 14. október 1999 og þá sýnt við miklar vinsældir um þriggja ára skeið. Sýningar voru síðan teknar upp að nýju í janúar á þessu ári og ljóst að vinsældir Langafa og Önnu litlu hafa síst minnkað frá því sem áður var, en það eru þau Aino Freyja Järvelä og Bjarni Ingvarsson sem leika þau skötuhjúin. Langafi prakkari er þar með komin í hóp allra vinsælustu sýninga Möguleikhússins, en sýningarmetið á sýningin um hinar böldnu systur Snuðru og Tuðru, en sýningar á henni urðu 221 talsins. Nú er bara að sjá hvort Langafa takist að slá það sýningarmet.


Mikil eftirspurn eftir jólasýningum Möguleikhússins

431365_124_2421Mikil eftirspurn er eftir sýningum á jólaleikritunum Hvar er Stekkjarstaur? og Smiður jólasveinanna sem Möguleikhúsið býður upp á nú fyrir jólin. Grunn- og leikskólar keppast nú við að bóka sýningar og er lausum sýningardögum óðum að fækka. Er sérstaklega ánægjulegt að sjá með hve auknum fyrirvara skólar eru nú að bóka sýningar. Er því um að gera fyrir þá sem eru að velta fyrir sér að fá sýningu í skólann sinn að draga nú ekki um of að panta.


Höll ævintýranna á austurlandi

Höll ævintýranna Möguleikhúsið er nú að leggja í leikferð með leiksýninguna Höll ævintýranna um austurland. Það er Bjarni Ingvarsson sem leikur í sýningunni, en hann samdi einnig handritið. Leikstjóri er Sigurður Sigurjónsson og Katrín Þorvaldsdóttir hafði umsjón með leikmynd og búningum. Fyrsta sýningin á austurlandi verður á leikskólanum Skógarlandi á Egilstöðum miðvikudagsmorguninn 17. október, en Höll ævintýranna er ætluð börnum á leikskólaaldri og í yngstu bekkjum grunnskóla.

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband