200. sýning á Langafa prakkara

Langafi prakkari 200. sýning Möguleikhússins á barnaleikritinu Langafi prakkari verður sýnd í leikskólanum Brákarborg fimmtudaginn 24. janúar k. 10:00. Þetta er önnur sýningin á verkefnakrá Möguleikhússins þetta leikárið sem nær þessum sýningarfjölda, en þess er skemmst að minnast að skömmu fyrir jól var sýnd 200. sýning á jólaleikritinu Hvar er Stekkjarstaur? Það hlýtur að teljast nokkuð einstakt að sama leikhúsið nái að sýna tvöhundruðustu sýningu á tveimur leikverkum á einu og sama leikárinu. Það má því með sanni segja að sýningar leikhússins hafi hlotið góðar móttökur í vetur, en flestar fara þær fram í leik- og grunnskólum landsins.

Leikritið Langafi prakkari, sem byggir á sögum Sigrúnar Eldjárns, Langafi drullumallar og Langafi prakkari, var frumsýnt 14. október 1999 og þá sýnt við miklar vinsældir um þriggja ára skeið. Sýningar voru síðan teknar upp að nýju í janúar á þessu ári og ljóst að vinsældir Langafa og Önnu litlu hafa síst minnkað frá því sem áður var, en það eru þau Aino Freyja Järvelä og Bjarni Ingvarsson sem leika þau skötuhjúin, leikstjóri og höfundur leikgerðar er Pétur Eggerz, búningar eru eftir Katrínu Þorvaldsdóttur og tónlist samdi Vilhjálmur Guðjónsson.

Í leikritinu segir frá lítilli stúlku, Önnu, og langafa hennar. Þó langafi sé blindur og gamall er hann alltaf tilbúinn að taka þátt í einhverjum skemmtilegum uppátækjum með Önnu litlu. Hann passar hana alltaf á daginn þegar pabbi hennar og mamma eru í vinnunni. Þá hefur hann nægan tíma til að sinna henni og þau gera ýmislegt skemmtilegt saman. Þau skoða mannlífið, baka drullukökur, veiða langömmur og fleira. Þetta er enginn venjulegur langafi …

Langafi prakkari er þar með komin í hóp allra vinsælustu sýninga Möguleikhússins, en sýningarmetið á sýningin um hinar böldnu systur Snuðru og Tuðru, en sýningar á henni urðu 221 talsins. Nú er bara að sjá hvort Langafa takist að slá það sýningarmet.

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Til hamingju ekki á hverjum degi sem leikrit eru sýnd svona oft, spurning hvort Langafi sé nógu langur til að teygja sig yfir Tuðru og Snuðru

Elfar Logi Hannesson (IP-tala skráð) 25.1.2008 kl. 23:19

2 Smámynd: Möguleikhúsið

Ert þú ekki sjálfur farinn að nálgast annað hundraðið með Gísla súra?

Möguleikhúsið, 26.1.2008 kl. 12:46

3 identicon

er að nálgast næsta sýning á Gísla verður sú 164 og stefna er að sjálfsögðu sett á 200 og vonandi næst það á þessu ári

Elfar Logi Hannesson (IP-tala skráð) 26.1.2008 kl. 16:10

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband