Alli Nalli á ferð og flugi

Alli Nalli og tungliðMöguleikhúsið hefur nú lokið leikferð um vestfirði með leiksýninguna um Alla Nalla og tunglið. Alls voru sýndar 11 sýningar á fjórum dögum og óhætt að segja að móttökur hafi allsstaðar verið mjög góðar. Sannaðist enn sem fyrr að vestfirðingar eru höfðingjar heim að sækja. Það reyndi hins vegar mjög á fólk og farartæki að aka um vegina á fjörðunum sunnanverðum og eiga vestfirðingar stuðning Möguleikhússins vísan í baráttunni fyrir bættu vegakerfi. Undirbúningur er nú hafinn að næstu leikferð með Alla Nalla út á land og er stefnan tekin á norðurland dagana 5. - 9. október. Að því loknu taka við sýningar í Gerðubergi sunnudagana 11. og 18. október kl. 14:00. Miðaverð er kr. 1.500 og tekið er á móti pöntunum í s. 5622669.

MÖGULEIKHÚSIÐ SÝNIR ALLA NALLA OG TUNGLIÐ Á VESTFJÖRÐUM

23.2.2009 065Möguleikhúsið hefur vetrarstarf sitt með leikferð um vestfirði dagana 14. – 17 september með barnaleikritið Alli Nalli og tunglið.Sýnt verður í nokkrum grunn- og leikskólum auk þess sem boðið verður upp á almennar sýningar í Kaffi Galdri, Hólmavík mánudaginn 14. september kl. 17:30, Hömrum, Ísafirði þriðjudaginn 15. september kl. 17:30 og í félagsheimili Þingeyrar miðvikudaginn 16. september kl. 17:30.Miðaverð er kr. 1.500 

Pössunarpíurnar Ólína og Lína vita fátt betra en að vera með börnum, fara með þeim í leiki og gera annað skemmtilegt. Þær hafa líka ýmsar sögur að segja af honum Alla Nalla, sem var fyrsti krakkinn sem þær pössuðu. Þó Alli Nalli væri oftast góður og þægur átti hann stundum til að vera pínulítið óþekkur eins og aðrir krakkar. Eins og til dæmis þegar hann harðneitaði að borða grautinn sinn á kvöldin. Þá gaf mamma hans tunglinu grautinn og tunglið stækkaði og stækkaði ... 

Bókin um Alla Nalla og tunglið kom fyrst út árið 1959. Það var fyrsta barnabókin sem Vilborg Dagbjartsdóttir skrifaði og jafnframt fyrsta bókin sem kom út eftir hana. Það er því vel við hæfi að fagna fimmtíu ára höfunarafmæli hennar með sviðsetningu á þessu ástsæla verki. Síðar komu einnig út barnabækurnar Sögur af Alla Nalla og Labbi pabbakútur, en það eru einkum þessar þrjár sem leiksýningin byggir á.  Alli Nalli og tunglið hlaut tilnefningu til Grímunnar, íslensku leiklistarverðlaunanna, sem barnasýning ársins 2009 Sýningin er ætluð áhorfendum á aldrinum 1 til 8 ára og tekur 45 mínútur í flutningi. Leikstjóri er Pétur Eggerz, tónlist er eftir Kristján Guðjónsson en leikmynd og búningar eftir Messíönu Tómasdóttur.  Leikarar eru Alda Arnardóttir og Anna Brynja Baldursdóttir.


Möguleikhúsið hefur tuttugasta starfsár sitt

Alli Nalli og tungliðMöguleikhúsið er nú að hefja tuttugasta starfsár sitt, en leikhúsið var stofnað á vormánuðum 2010. Að vanda verður boðið upp á úrval sýninga fyrir yngri áhorfendurna og ferðast með sýningar milli grunn- og leikskóla um land allt. Á síðasta ári hóf Möguleikhúsið samstarf við Menningarmiðstöðina Gerðuberg í Breiðholti. Leiksýningin um Alla Nalla og tunglið var frumsýnd þar og einnig fór hið árlega leiklistarnámskeið fyrir börn fram þar í júní. Möguleikhúsið mun verða áfram í samstarfi við Gerðuberg í vetur, en sú dagskrá verður kynnt síðar. Fyrir áramót býður Möguleikhúsið upp á sýningar á leikritunum Alli Nalli og tunglið, Aðventa og Hvar er Stekkjarstaur? Í desember mun leikhúsið, líkt og undanfarin 14 ár, aðstoða Þjóðminjasafnið við að taka á móti íslensku jólasveinunum, en eftir áramótin hefjast sýningar á Prumpuhólnum eftir Þorvald Þorsteinsson sem áður var á dagskrá Möguleikhússins á árunum 2002-2004. Þá verður sýningum á Langafa prakkara og Landinu vifra einnig haldið áfram eftir áramótin.


Lokadagur leiklistarnámkeiðs

14. dagur - 26. júní

Þá er það sjálfur sýningardagurinn. Það mættu allir klukkan ellefu í morgun og greinileg spenna í loftinu. Við renndum í gegnum verkið og fínpússuðum nokkur atriði. Síðan var farið út í sólina í hádeginu. Klukkan tvö komu um 100 börn af leikjanámskeiðum í Breiðholtinu að horfa á fyrri sýninguna. Allt gekk ljómandi vel og ekki annað að sjá en áhorfendur skemmtu sér hið besta. Eftir sýninguna var slakað á, komið að langþráðum sælgætiskaffitíma og dansað í salnum. Klukkan fimm var það svo stóra stundin. Foreldrar og aðrir aðstandendur flykktust í salinn og lokasýningin hófst á tilsettum tíma. Allt gekk eins og best varð á kosið, krakkarnir stóðu sig eins og hetjur og hlutu dynjandi lófaklapp að launum. Þar með er námskeiðinu lokið og við hverfum inn í sumarið með bros á vör.


Þrettándi dagur leiklistarnámskeiðs

 

13. dagur - 25. júní

Sýningin um Sálina hans Jóns míns er nú óðum að taka á sig endanlega mynd og verður sífellt meira gaman að fylgjast með framförum krakkanna á sviðinu. Við renndum tvisvar gegnum verkið, sem nú hefur hlotið nafnið "Horfið til himins" og allir stóðu sig frábærlega. Það er farin að fara fiðringur um mannskapinn og greinilegt að mikil spenna er fyrir morgundeginum.


Tólfti dagur leiklistarnámskeiðs

 

12. dagur - 24. júní

Í morgun var byrjað á að lagfæra og bæta við atriðum í lokahluta sýningarinnar. Allir sýndu mikla þolinmæði meðan farið var aftur og aftur yfir sömu atriðin. Eftir hádegið fengum við útvarpskonu frá þættinum Leynifélagið á Rás eitt í heimsókn. Hún spjallaði við krakkana og verður það viðtal á dagskrá innan tíðar. Að endingu var svo rennt í gegnum allt leikritið í öllum þeim búningum sem komnir eru.


Ellefti dagur sumarnámskeiðs

11. dagur - 23. júní

Nú er æft stíft. Við fórum í gegnum megnið af atriðunum í sýningunni í morgun. Þetta er sífellt að taka á sig skírari mynd og krakkarnir standa sig hvert öðru betur. Hildigunnur var með okkur í dag og hamaðist við að útbúa búninga og leikmuni fyrir leikarana. Þegar æfingum var haldið áfram eftir hádegið var því sem komið var af búningum bætt inn í og verkaði það sem vítamínsprauta á hópinn.


Tíundi dagur leiklistarnámskeiðs

10. dagur - 22. júní

Þá er þriðja og síðasta vikan hafin og nú verður sett í fluggírinn. Við tókum upp þráðinn þar sem frá var horfið fyrir helgi og hófum daginn á að rifja upp leikþættina um Sálina hans Jóns míns. Allir reyndust með sitt á hreinu og því gátum við haldið ótrauð áfram og prjónað framhald. Allir sýndu þolinmæði þótt stundum væri staldrað lengi við smáatriði og hjakkað í sama farinu. Það er smám saman að færast mynd á helstu þætti sýningarinnar okkar.


Níundi dagur leiklistarnámskeiðs

9. dagur - 19. júní

Við byrjuðum á að gera stutta geimveruspuna, geimverur komu til jarðarinnar og rákust á stól. Þær þurftu síðan að finna til hvers væri hægt að nota hann. Síðan var haldið áfram að vinna leikþættina um Sálina hans Jóns míns. Eftir hádegið voru tíndir til búningar úr safni leikhússins og krakkarnir skelltu upp útileikhúsi utan við Gerðuberg. Þar léku þau fyrir krakka sem eru hér á námskeiði á vegum Rauða krossins. Þar með er annarri viku námskeiðsins lokið og komið helgarfrí.


Áttundi dagur leiklistarnámskeiðs

8. dagur - 18. júní

Eftir þjóðhátíðarfrí mættu allir hressir og kátir. Eftir að hafa farið í hópspuna og leikið stutta brandara var haldið áfram að vinna í leikþáttunum um Sálina hans Jóns míns. Nú erum við að byrja að festa þetta meira niður og bæta inn einum og öðrum smáatriðum. Dansinn var líka æfður undor stjórn Bergljótar og Birgittu. Í lok dags var svo farið í spuna þar sem einn talaði á bullmáli og annar gegndi hlutverki túlks.

 


Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband