7.4.2008 | 15:59
Fleiri góðir dómar um Aðventu
Enn halda áfram að birtast dómar um sýningu okkar á Aðventu. Í Morgunblaðinu í dag skrifar Martin Regal um sýninguna. Dómur hans fylgir hér að neðan.
Aðventa eða að láta gott af sér leiða
Aðventa
Leikgerð Öldu Arnardóttur á sögu Gunnars Gunnarssonar. Pétur Eggerz flytur og bregður sér í hlutverk helstu persóna. Hljóðmynd: Kristján Guðjónsson. Leikmynd og búningar: Messíana Tómasdóttir. Lýsing: Bjarni Ingvarsson.
AÐVENTA eftir Gunnar Gunnarsson er byggð á persónu Benedikts nokkurs Sigurjónssonar sem lagði af stað með öðrum þann 10. desember 1925 í leit að kindum en hélt svo áfram eftir að hinir hættu við þremur dögum síðar. Upp úr þessu samdi Gunnar langa smásögu sem hét Góði hirðirinn sem hann síðan tálgaði niður í Aðventu. Hún var fyrst gefin út í Þýskalandi árið 1936, síðan þýdd á íslensku af Magnúsi Ásgeirssyni og birtist hérlendis árið 1939. Í nýjustu útgáfu hennar (Bjartur 2007) er sagan um tuttugu þúsund orð eða rúmlega áttatíu síður.
Að breyta einni af frægustu smásögum landsins í leikrit er talsvert afrek. Alda Arnardóttir gerir þetta svo prýðilega að maður undrast af hverju engum hafði dottið það í hug áður. Frásögn Gunnars er í þriðju persónu en það er innri rödd Benedikts og samtöl hans sem knýja söguna áfram og þau nýtir Alda vel í leikgerðinni. Þar sem sýningin er ekki nema ein klukkustund er óhjákvæmilega margt sem er stytt eða sleppt og þar á meðal ýmsar heimspekilegar vangaveltur höfundar. Hins vegar tekst Öldu sérstaklega vel að skapa lifandi mynd af þessum ljúfa manni. Það er mikið álag fyrir Pétur Eggerz að leika öll hin hlutverkin og sérstaklega þar sem hann þarf stundum að skipta á milli þeirra á stuttum tíma. Þetta hlýtur hann að slípa til með hverri sýningu. Aðdáunarvert er hvernig Pétur lifir sig inní hlutverkin en þó vantar upp á tæknina hjá honum til þess að skilja betur á milli persónanna. Hljóðmynd Kristjáns Guðjónssonar fer vel í þessum einleik og sviðsmynd Messíönu Tómasardóttur, eins og sagan sjálf, segir miklu meira en það sem við sjáum við fyrstu sýn.
Það kann að vera undarlegt að sýna verk sem heitir Aðventa um páska en Benedikt segir í upphafi sögunnar að hann hafi smám saman komist að því að allt hans líf væri orðið ein aðventa, eins konar bið eftir einhverju betra, eftirvænting, undirbúningi þeirri ákvörðun að láta gott af sér leiða. Því miður rímar það ekki við ákvörðun menntamálaráðuneytisins að veita Möguleikhúsinu ekki styrk í ár. Kannski ættu menn hjá úthlutunarnefnd ráðuneytisins að lesa sögu Gunnars aftur, og enn betra væri að fara á þessa sýningu og endurskoða ákvörðun sína.
Martin Stephan Regal
Menning og listir | Breytt s.d. kl. 16:00 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
31.3.2008 | 13:59
Rangfærslur í leikdómi um Aðventu
Í leikdómi Páls Baldvins Baldvinssonar í Fréttablaðinu 31. mars um sýningu Möguleikhússins á Aðventu segir að bæði ríki og borg hafi látið af stuðningi til starfsemi leikhússins á yfirstandandi ári. Hér er ekki rétt farið með. Hið rétta er að við úthlutun Menntamálaráðuneytis á fé til sjálfstæðra leikhúsa sem fram fer samkvæmt tillögum Leiklistarráðs hlaut Möguleikhúsið í fyrsta sinn í fjórtán ár engan stuðning þaðan, hvorki í formi starfslauna né beins fjárstuðnings. Reykjavíkurborg styrkir Möguleikhúsið hinsvegar um 3 milljónir króna í ár og er það samkvæmt þriggja ára starfssamningi. Sá samningur var endurnýjaður fyrir rúmu ári og lækkaði þá um 25% frá því sem áður var. Menntamálaráðuneytið hefur nú veitt Möguleikhúsinu 2 millj. króna til reksturs leikhússins á yfirstandandi ári. Samtals hefur Möguleikhúsið því hlotið 5 milljónir króna til rekstur og uppsetninga leikverka í ár. Það er ljóst að þessi stuðningur dugir hvergi nærri fyrir óbreyttum áframhaldandi rekstri og stefnir því allt í að Möguleikhúsið flytji úr húsnæði því sem það hefur yfir að ráða við Hlemm síðar á árinu og dragi verulega úr allri starfsemi.
Þá segir á öðrum stað í dómnum Í inngangsorðum verksins er okkur sagt fyrirmunað að skilja fjárgæslu á vetrum. Okkar tímar skynji ekki þá miklu vá sem vofði yfir fjármönnum í vetrarveðrum. Þessar fullyrðingar er hvergi að finna í texta sýningarinnar og eru því alfarið túlkun gagnrýnandans á verkinu.
26.3.2008 | 11:34
Jón Viðar bara nokkuð hress
19.3.2008 | 14:19
Aðventa fær góðar viðtökur
Þá erum við búin að frumsýna Aðventu og ekki annað hægt að segja en hún hafi fengið góðar vitökur.
Leiklistargagnrýnandi Víðsjár á Rás 1, Þorgerður E. Sigurðardóttir, fjallaði um sýninguna s.l. mánudag og fór um hana mjög lofsamlegum orðum. Gagnrýnina má heyra í vefútgáfu þáttarins á slóðinni http://dagskra.ruv.is/streaming/ras1/?file=4386933
Silja Aðalsteinsdóttir fjallar um sýninguna í Viðskiptablaðinu í dag, 19. mars, og segir þar m.a.: "Pétur Eggerz leikari og leikhússtjóri Möguleikhússins vinnur afrek með túlkun sinni á sögu Gunnars sem frumsýnd var á sunnudagskvöldið. Hann segir þessa rammíslensku hrakningasögu af einlægni og dirfsku, leikur persónur hennar tilgerðarlaust en þó af styrk, þannig að þær standa ljóslifandi fyrir framan mann."
Umsögn Silju má einnig lesa á heimasíðu Tímarits máls og menningar á slóðinni http://www.tmm.is/default2.asp?strAction=getPublication&intPublId=1461
14.3.2008 | 13:09
Möguleikhúsið frumsýnir Aðventu
Þegar hátíð fer í hönd, búa menn sig undir hana, hver á sína vísu.
Þannig hefst saga Gunnars Gunnarssonar, Aðventa. Bókin kom út árið 1939 og er hún sú saga Gunnars sem sem víðast og oftast hefur verið gefin út. Hún kom fyrst út á dönsku, en síðar þýddi höfundurinn hana sjálfur á íslensku.
Sunnudaginn 16. mars kl. 20:00 frumsýnir Möguleikhúsið við Hlemm leikgerð Öldu Arnardóttur á þessari kunnu sögu Gunnars.
Hér er sagt frá svaðilförum vinnumannsins Benedikts sem fer til fjalla í vetraríki aðventunnar að leita þess fjár sem eftir varð er smalað var um haustið. Það er köllun hans að koma þessum eftirlegukindum til byggða fyrir hátíðirnar. Söguna byggir höfundur á frásögnum af frægum svaðilförum Benedikts Sigurjónssonar, öðru nafni Fjalla-Bensa, á Mýrdalsöræfum og einkum þó eftirleitarferð sem hann fór í desember 1925. Þetta er klassísk saga um náungakærleika og fórnfýsi í vetrarhörkum íslenskra öræfa.
Í sýningunni er unnið eftir aðferðum frásagnarleikhússins þar sem einn leikari. Pétur Eggerz, stendur á sviðinu, flytur söguna og bregður sér jafnframt í hlutverk helstu persóna. Þá skipar hljóðmynd stóran sess í sýningunni og á þátt í að skapa heim sögunnar, en höfundur hljóðmyndarinnar er Kristján Guðjónsson sem hér vinnur sitt fyrsta verkefni með Möguleikhúsinu. Leikmynd og búninga hannar Messíana Tómasdóttir en Bjarni Ingvarsson annast lýsingu.
Sýningin er ætluð áhorfendum frá 13 ára aldri og tekur 60 mínútur í flutningi. Auk þess að vera sýnd í Möguleikhúsinu við Hlemm er sýningin á faraldasfæti og geta því skólar sem og aðrir fengið hana í heimsókn til sín.
7.3.2008 | 12:04
Aðventa fyrir páska
29.2.2008 | 16:21
Annir framundan hjá Möguleikhúsinu
28.2.2008 | 16:03
Skrímslum vel tekið
26.2.2008 | 11:01
Skrímsli í Möguleikhúsinu
Náttúrufræðistofnun vill vekja athygli á HRAFNAÞINGI Á HLEMMI - opnum fræðsluerindum stofnunarinnar.
Erindi eru flutt að jafnaði annan hvern miðvikudag og eru haldin í sal Möguleikhússins á Hlemmi, Reykjavík.
Þau hefjast kl. 12:15 og er lokið kl. 13:00
Sérstakur auka fyrirlestur verður á Hrafnaþingi miðvikudaginn 27. febrúar þar sem gestafyrirlesari kemur frá Ísafirði. Fyrirlesturinn er fluttur í samvinnu við Möguleikhúsið og nefnist
Skrímsli
Jónatan Þorvaldsson skrímslafræðingur frá Ísafirði og sérfræðingur hjá Náttúruundrastofnun vest-norræna Atlantshafsráðsins, flytur fyrirlestur um rannsóknir sínar um tilvist skrímsla á og við Ísland.
Frá örófi alda hafa skrímsli af ýmsum toga reglulega sést í sjó og vötnum á Íslandi. Strax í Landnámu er getið sjávar- og vatnaskrímsla og frásögur af samskiptum þeirra við landsmenn frá fyrstu öldum Íslandsbyggðar fylla heilu ritsöfnin. Skepnur þessar eru af ýmsum toga, litlar og stórar, grimmar, ljúfar, illskeyttar og stundum jafnvel lífhættulegar. En hverjar eru þessar dularfullu verur, hvar er þær helst að finna og hvernig er best að bera kennsl á þær?
Þessum spurningum svarar Jónatan Þorvaldsson og setur um leið fram óvéfengjanlega sannanir fyrir tilvist skrímsla í sjó og vötnum á Íslandi.
Nánari upplýsingar um fyrirlesturinn má nálgast á slóðinni http://www.moguleikhusid.is/moguleikhusid/leiksyningar/skrimsli/
22.2.2008 | 11:58
Orð í tíma töluð
Í Morgunblaðinu í gær, fimmtudaginn 21. febrúar, birtist athyglisverð grein eftir Svein Einarsson, fyrrverandi Þjóðleikhússtjóra. Þar gerir hann að umræðuefni það ófremdarástand sem ríkir er kemur að stuðningi Menntamálaráðuneytisins við sjálfstæð atvinnuleikhús. Í greininni kemur Sveinn með skýrar og vel rökstuddar tillögur um hvernig megi haga þessum málum. Það er að minnsta kosti ljóst að þegar skipulagið er með þeim hætti að órökstudd ákvörðun þriggja manna nefndar getur gert að engu uppbygginu síðustu átján ára, líkt og nú stefnir allt í hér hjá okkur í Möguleikhúsinu, er kominn tími til að taka það til gagngerðrar endurskoðunar.
Grein Sveins má nálgast á heimasíðu Sjálfstæðu leikhúsanna á slóðinni http://www.leikhopar.is/Apps/WebObjects/BandSjalfsLeikhusa.woa/1/wa/dp?detail=1001355&name=leikhopar_frett_nanar&wosid=ik6W00gqGOMkfaAExhn4fM