5.2.2009 | 16:26
Möguleikhúsið hlýtur ekki náð fyrir augum leiklistarráðs
Nýlega var tilkynnt hvaða sjálfstætt starfandi leikhús hljóta styrk frá menntamálaráðuneyti samkvæmt tilmælum leiklistarráðs. Annað árið í röð verðum við í Möguleikhúsinu að sætta okkur við að fá engan stuðning, þrátt fyrir öflugt starf og gríðarlega góðar undirtektir áhorfenda um land allt. Þá vekur athygli hversu lítils leiksýningar fyrir börn eru metnar er að úthlutun kemur, en af 66 milljónum króna sem úthlutað var voru aðeins 6,7 milljónir sérstaklega ætlaðar til uppsetninga á leikritum fyrir börn.
Það er því ljóst að róðurinn þyngist í rekstrinum á komandi mánuðum og draga verður verulega úr þeirri starfsemi sem fyrir huguð var á næstu misserum. Það er þó huggun harmi gegn að enn er í gildi starfssamningur milli leikhússins og Reykjavíkurborgar sem gerir okkur kleift að standa við áætlanir um frumsýningu á leikritinu Alli Nalli og tunglið, sem verið er að æfa um þessar mundir. Hvað framtíðin ber í skauti sér er öldungis óvíst, en samningurinn við Reykjavíkurborg rennur út nú í árslok. Hvað sem öllu líður er nokkuð ljóst að ekki er hægt að reikna með stuðningi menntamálaráðuneytis við rekstur barnaleikhúss á Íslandi, það teljum við í Möguleikhúsinu fullreynt eftir tæplega nítján ára starf.
Við í Möguleikhúsinu óskum þeim sjálfstæðu atvinnuleikhúsum sem stuðning hafa hlotið til starfsemi til hamingju með sinn hlut.
Flokkur: Menning og listir | Breytt s.d. kl. 16:29 | Facebook
Athugasemdir
Þetta er alveg óskiljanlegt. Reyndar hef ég aldrei áttað mig á þessu apparati Leiklistarráði sem virðist ekki hafa neina stefnu. Nú er bara spurning um að finna nýjar leiðir því við viljum alls ekki missa Möguleikhúsið sem hefur átt stóran þátt í að byggja upp og efla barnaleikhúsmenningu á Íslandi síðustu tvo áratugi. Baráttukveðjur frá atvinnuleikhúsinu á Ísafirði
Elfar Logi Hannesson, 6.2.2009 kl. 16:00
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.