28.10.2008 | 16:17
Sýningar að hefjast á Aðventu
Möguleikhúsið er nú að hefja að nýju sýningar á einleiknum Aðventu, sem byggir á samnefndri sögu Gunnars Gunnarssonar. Auk þess að bjóða sýninguna nemendum í framahaldsskólum og unglingadeildum grunnskóla bryddar leikhúsið nú upp á þeirri nýbreytni að bjóða upp á sérstakar sýningar fyrir eldri borgara. Er þá bæði um það að ræða að komið sé með sýninguna á þá staði sem óska eftir sýningum, en einnig er boðið upp á sýningar í Iðnó, sem sérstaklega eru ætlaðar eldri borgurum. Hefur þessi nýjung mælst vel fyrir og er nú þegar búið að bóka nokkrar sýningar undir þessum formerkjum.
Í sýningunni er sagt frá svaðilförum vinnumannsins Benedikts sem fer til fjalla í vetraríki aðventunnar að leita þess fjár sem eftir varð er smalað var um haustið. Það er köllun hans að koma þessum villuráfandi sauðum í öruggt skjól fyrir hátíðirnar. Söguna byggir höfundur á frásögnum af frægum svaðilförum Benedikts Sigurjónssonar, öðru nafni Fjalla-Bensa, á Mývatnsöræfum og einkum þó eftirleitarferð sem hann fór í desember 1925. Þetta er klassísk saga um náungakærleika og fórnfýsi.
Leikari í sýningunni er Pétur Eggerz, leikstjóri og höfundur handrits er Alda Arnardóttir, tónlist samdi Kristján Guðjónsson en Messíana Tómasdóttir er höfundur leikmyndar og búninga.
Flokkur: Menning og listir | Breytt s.d. kl. 16:19 | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.