12.10.2008 | 13:42
Sæmundur fróði heimsótti austurland á krepputímum.
Möguleikhúsið hefur nú lokið leikferð um austurland með leiksýninguna Sæmund fróða. Sýndar voru alls átta sýningar á fjórum dögum. Það setti óneitanlega svip sinn á ferðina, sem farin var dagana 7. - 10. október, að hún var farin í skugga þeirra dramatísku atburða sem dunið hafa á þjóðinni. Var mjög ánægjulegt fyrir leikhópinn að finna með hversu mikilli jákvæðni skólafólk um land allt tók á málum og að lífið í skólunum gekk sinn vanagang. Það var okkur líka áminning um nauðsyn þess að halda áfram öflugu lista- og menningarstarfi hér á þessum erfiðu tímum, treysta þann grunn sem við höfum og leyfa okkur um leið að leiða hugann um stund frá vandamálum dagsins. Þá er ekki síður mikilvægt að yngsta kynslóðin finni að lífið haldi áfram að ganga sinn vanagang og við gefum okkur tíma til að sinna þeim.
Leikferðin með Sæmund hófst með sýningu á Kirkjubæjarklaustri þriðjudaginn 7. október. Þaðan lá leiðin til Djúpavogs þar sem sýnt var að morgni 8. október. Að sýningunni lokinni var ekið sem leið lá um Öxi til Eiða þar sem sýnt var eftir hádegið fyrir börn í grunnskóla Egilsstaða og Eiða. 9. október var sýnt í Fellaskóla í Fellabæ og Brúarásskóla. Síðasta dag ferðarinnar, föstudaginn 10. október voru þrjár sýningar, í Vopnafjarðarsóla, á Þórshöfn og Raufarhöfn. Allstaðar voru viðtökur mjög góðar og kunnum við skólafólki og börnum bestu þakkir.
Flokkur: Menning og listir | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.