BARNALEIKHÚS Á TÍMAMÓTUM

Áhorfendur á sýningu MöguleikhússinsMöguleikhúsið stendur á tímamótum. Það er átján ára og hefur formlega slitið barnsskónum, er orðið fullorðið barnaleikhús. En það stendur líka á tímamótum í öðrum skilningi. Í sumar flutti Möguleikhúsið úr húsnæðinu við Hlemm þar sem það hefur haft aðsetur síðustu 14 árin. Í ljósi samdráttar á opinberum stuðningi var því miður ekki lengur grundvöllur fyrir áframhaldandi rekstri barnaleikhússins við Hlemm. En Möguleikhúsið hefur þó síður en svo hætt starfsemi og mætir til leiks með öfluga vetrardagskrá. Frá upphafi hefur það verið rekið sem ferðaleikhús sem kemur með sýningar sínar í heimsókn í leik- og grunnskóla og mun starfa áfram á þeim grundvelli.Dagskrá vetrarins er fjölbreytt og höfðar til allra aldurshópa barna og unglinga, allt frá leikskólabörnum til framhaldsskólanema.Frá fyrra leikári verður haldið áfram sýningum á fimm verkum. Langafi prakkari, sýning sem byggð er á sögum Sigrúnar Eldjárns, sem nú þegar er kominn upp í 220 sýningar, heldur áfram að heilsa upp á börn í leik- og grunnskólum. Það gerir einnig ljóðafólkið frá Landinu vifra, þar sem veitt er innsýn í hinn skemmtilega ljóðaheim Þórarins Eldjárns, en sú sýning var tilnefnd til Grímunnar – íslensku leiklistarverðlaunanna sem barnasýning ársins 2005. Þá mun Sæmundur fróði halda áfram að skemmta grunnskólabörnum með sinni ógleymanlegu glímu við kölska sjálfan í leikgerð Péturs Eggerz. Jóladagskráin hefst í lok nóvember með jólaleikritinu vinsæla Hvar er Stekkjarstaur? Einleikurinn Aðventa, leikgerð Öldu Arnardóttur sem byggir á klassískri sögu Gunnars Gunnarssonar, var frumsýndur síðasta leikár við góðar undirtektir og býðst nú unglingadeildum og framhaldsskólum, en sýningin verður einnig á almennum sýningum í Iðnó á aðventunni. Þá mun Möguleikhúsið, líkt og undanfarin 14 ár aðstoða við að taka á móti íslensku jólasveinunum er þeir koma til byggða og heimsækja Þjóðminjasafn Íslands. Þar hefur alla jafna safnast saman mikill mannfjöldi til að heilsa upp á bræðurna sem koma einn af öðrum frá 12. desember til aðfangadags. Það er Pétur Eggerz sem hefur yfirumsjón með heimsókn sveinanna fyrir hönd Möguleikhússins, en tónlistarstjóri og sérstakur móttökufulltrúi er Guðni Franzson. Eftir áramótin snýr einleikur sellóleikarans Stefáns Arnar Arnarsonar, Tónleikur, aftur eftir nokkurra ára hlé og verður sýndur í takmarkaðan tíma í samvinnu við Tónlist fyrir alla. Önnur sýning snýr einnig aftur eftir langt hlé, en það er verðlaunasýningin Völuspá, eftir Þórarin Eldjárn, sem sýnd verður á leikferð í Bandaríkjunum í maí.Í mars er komið að frumsýningu á nýju bráðskemmtilegu verki, en það er Alli Nalli og tunglið, sem byggir á vinsælum barnasögum Vilborgar Dagbjartsdóttur. Sýningin er ætluð allra yngstu áhorfendunum og mun ferðast milli leikskólanna. Leikgerð sýningarinnar er unnin af Öldu Arnardóttur og Pétri Eggerz, en hann er jafnframt leikstjóri sýningarinnar. Leikmynd og búningar eru í höndum Messíönu Tómasdóttur en umsjón með tónlist hefur Kristján Guðjónsson. Leikarar eru Alda Arnardóttir og Anna Brynja Baldursdóttir.Það ættu því allir að finna eitthvað við sitt hæfi á dagskrá vetrarins – GÓÐA SKEMMTUN! Nánari upplýsingar um Möguleikhúsið og sýningar þess er að finna á heimasíðunni www.moguleikhusid.is

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband