25.6.2008 | 14:53
Síðasta sýningin í Möguleikhúsinu við Hlemm
Frá árinu 1995 hefur Möguleikhúsið staðið fyrir leikhúsnámskeiðunum Leikhús möguleikanna fyrir börn á sumrin sem haldin hafa verið í húsnæði Möguleikhússins við Hlemm. Um er að ræða þriggja vikna námskeið þar sem unnið er með börnunum fimm tíma á dag fimm daga vikunnar og fengist við flest þau atriði sem tengjast leikshúsuppsetningu. Allir þessir þættir eru síðan nýttir til að vinna leiksýningu frá grunni, sem sýnd er í Möguleikhúsinu í lok námskeiðsins. Skapast hefur sú hefð að sýningin sé sýnd a.m.k. tvisvar, annars vegar fyrir börn á nokkrum leikjanámskeiðum og hins vegar fyrir aðstandendur barnanna.
Nú í sumar hófst námskeiðið 9. júní og lýkur með sýningu næstkomandi föstudag, 27. júní. Sýningin ber heitið Hentu í mig hamrinum og byggir á sögum úr norrænni goðafræði, nánar tiltekið frásögninni af því er Þrymur stelur hamri Þórs. Þátttakendur eru 12 börn á aldrinum 9 til 12 ára en leiðbeinendur á námskeiðinu eru Pétur Eggerz og Margrét Pétursdóttir.Sýningin á föstudag verður jafnframt síðasta leiksýningin í Möguleikhúsinu við Hlemm, en vegna minnkandi stuðnings frá menntamálaráðuneytinu er ekki lengur grundvöllur fyrir rekstri húsnæðisins. Í júlíbyrjun mun starfsemi leikhússins flytja úr húsnæðinu sem kemur til með að verða geymsluhúsnæði fyrir Félagsbústaði Reykjavíkurborgar. Möguleikhúsið mun þó ekki hætta starfsemi heldur starfa áfram sem ferðaleikhús án eigin húsnæðis. Möguleikhúsið opnaði leikhúsið við Hlemm í júní 1994 og hefur því haft þar aðsetur í 14 ár. Leikhúsið hefur frá upphafi verið helgað sýningum fyrir börn og unglinga og er fyrsta leiksviðið hér á landi sem eingöngu er ætlað í þeim tilgangi. Það hlýtur því að teljast til nokkurra tíðinda að nú sé að því komið að loka þurfi Möguleikhúsinu við Hlemm, en vonandi kemur sá tími síðar að stuðningur finnist til að tryggja rekstur sérstaks leikhúss fyrir yngstu kynslóðina á Íslandi.Flokkur: Menning og listir | Facebook
Athugasemdir
bæði gleðidagur og sorgardagur í íslenskri leiklistarsögu, gleðin felst í sýningu framtíða leikara Íslands en sorgin að það skuli virkilega vera staðreynd að Menntamálaráðuneytið loki eina barnaleikhúsinu á Íslandi. En þetta er víst leikhúsið einsog það leggur sig - er það ekki - grímurnar góðu gleði og sorg. En það kemur dagur eftir þennan og vonandi lifum við það að sjá barnaLeikhús á Íslandi aftur, getur ekki verið að Menntamálaráðuneyti vilji til lengdar hvorki styrkja rekstur barnaleikhús né starfsemi atvinnuleikhúsa á landsbyggðinni - er alveg óskiljanlegt
Elfar Logi Hannesson, 25.6.2008 kl. 17:29
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.