16.4.2008 | 18:21
Heimsókn á danska barnaleikhúshátíð
Dagana 7. - 13. apríl s.l. fórum við tvö, Pétur Eggerz og Alda Arnardóttir, frá Möguleikhúsinu á árlega hátíð danskra barnaleikhúsa. Hátíð þessi er haldin í apríl ár hvert, en fer á milli staða og er því aldrei haldin í sama bænum tvö ár í röð. Í ár var hátíðin haldin í Næstved á Sjálandi. Hátíðin er haldin til að kynna þær sýningar sem leikhúsin hafa í boði fyrir skóla næsta vetur. Þangað flykkist því fólk frá skólum, bókasöfnum og öðrum þeim sem kaupa sýningar fyrir hópa. Að hátíðinni lokinni er síðan tekið til við að bóka sýningar og fyrir sumarið er yfirleitt búið að ganga nokkurnvegin frá sýningaáætlun næsta vetrar. Að auki flykkist hópur leikhúsfólks allstaðar að úr heiminum á hátíðina, enda danskt barnaleikhús rómað sem eitt hið besta sem völ er á. Í ár voru sýndar um 150 leiksýningar á hátíðinni frá 100 leikhópum. Það var því úr mörgu að velja og ekki hægt að sjá nema hluta af því sem í boði var. Það var byrjað að sýna kl. níu að morgni og sýningum fram haldið til kvölds. Flestar voru sýningarnar 40 - 60 mínútur að lengd og því hægt að sjá nokkuð margar hvern dag. Á þeim fimm dögum sem við vorum þarna náðum við að sjá rúmlega tuttugu sýningar. Auðvitað voru þær misjafnar að gæðum, en það sem vakti hvað mesta athygli var af hve mikilli fagmennsku þær voru allar unnar, leikarar upp til hópa mjög góðir, útlit vel unnið og áræðni og framsækni ríkjandi þegar að verkefnavali og vinnulagi kemur. Nokkrar sýninganna stóðu þó óneitanlega uppúr.
Minnisstæðust er tvímælalaust sýning Det lille Turnéteater (http://www.detlilleturneteater.dk) á Hamlet, þar sem leikritið var flutt af tveimur leikurum og tveimur kontrabassaleikurum. Sýningin var leikin í íþróttasal þar sem eingöngu var notast við þá lýsingu sem fyrir var, leikmynd öll með einfaldasta sniði, en vinna leikaranna og samspil þeirra við tónlistarmennina slík að sagan um danaprinsinn snerti mann sem aldrei fyrr. Aðrar sýningar frá Det lille Turnéteater voru einnig með þeim betri á hátíðinni, m.a. Rómeó og Júlía, þar sem tveir leikarar léku sýninguna og notuðu til þess stórar en einfaldar brúður. Höfðu margir á orði að þeir hefðu aldrei fyrr tárast yfir örlögum leikbrúða á sviði. Nokkra athygli vakti einnig sýning leikhússins Corona La Balance á Bubba kóngi. Þar var ekkert dregið undan í subbuskap né orðbragði verksins þrátt fyrir að sýningin væri ætluð áhorfendum á aldrinum 8 - 12 ára.
Í sýningu Teatret Trekanten (http://www.teatrettrekanten.dk/), Englen & Den blå hest var fjallað um samskipti Guðs og engils. Þeir sitja einir saman uppi á himnum og hafa lítið annað en félagsskap hvors annars. Þegar Guð skapar lítinn bláan hest fyrir engilinn breytist allt. Það er erfiðara að vera þrír en tveir. Þetta var sérstaklega hlý sýning um vináttuna, Guð o.fl., en um leið óborganlega fyndin. Önnur sýning sem kitlaði hláturtaugarnar var sýning Teater TT (http://www.teatertt.dk/ ) Freddy og far, þar sem góðkunningi okkar úr Möguleikhúsinu, Torkild Lindebjerg, fór á kostum í einleik þar sem Freddy segir frá ótrúlegu lífhlaupi "uppeldisföður" síns. Gamanleikur í Chaplinskum anda.
Flokkur: Menning og listir | Breytt s.d. kl. 18:32 | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.