Fleiri góðir dómar um Aðventu

Enn halda áfram að birtast dómar um sýningu okkar á Aðventu. Í Morgunblaðinu í dag skrifar Martin Regal um sýninguna. Dómur hans fylgir hér að neðan.

Aðventa eða „að láta gott af sér leiða“

Aðventa

Leikarinn Pétur Eggerz fer með öll hlutverkin í sýningunni.
Leikarinn Pétur Eggerz fer með öll hlutverkin í sýningunni.
Leikgerð Öldu Arnardóttur á sögu Gunnars Gunnarssonar. Pétur Eggerz flytur og bregður sér í hlutverk helstu persóna. Hljóðmynd: Kristján Guðjónsson. Leikmynd og búningar: Messíana Tómasdóttir. Lýsing: Bjarni Ingvarsson.

AÐVENTA eftir Gunnar Gunnarsson er byggð á persónu Benedikts nokkurs Sigurjónssonar sem lagði af stað með öðrum þann 10. desember 1925 í leit að kindum en hélt svo áfram eftir að hinir hættu við þremur dögum síðar. Upp úr þessu samdi Gunnar langa smásögu sem hét Góði hirðirinn sem hann síðan tálgaði niður í Aðventu. Hún var fyrst gefin út í Þýskalandi árið 1936, síðan þýdd á íslensku af Magnúsi Ásgeirssyni og birtist hérlendis árið 1939. Í nýjustu útgáfu hennar (Bjartur 2007) er sagan um tuttugu þúsund orð eða rúmlega áttatíu síður.

Að breyta einni af frægustu smásögum landsins í leikrit er talsvert afrek. Alda Arnardóttir gerir þetta svo prýðilega að maður undrast af hverju engum hafði dottið það í hug áður. Frásögn Gunnars er í þriðju persónu en það er innri rödd Benedikts og samtöl hans sem knýja söguna áfram og þau nýtir Alda vel í leikgerðinni. Þar sem sýningin er ekki nema ein klukkustund er óhjákvæmilega margt sem er stytt eða sleppt og þar á meðal ýmsar heimspekilegar vangaveltur höfundar. Hins vegar tekst Öldu sérstaklega vel að skapa lifandi mynd af þessum ljúfa manni. Það er mikið álag fyrir Pétur Eggerz að leika öll hin hlutverkin og sérstaklega þar sem hann þarf stundum að skipta á milli þeirra á stuttum tíma. Þetta hlýtur hann að slípa til með hverri sýningu. Aðdáunarvert er hvernig Pétur lifir sig inní hlutverkin en þó vantar upp á tæknina hjá honum til þess að skilja betur á milli persónanna. Hljóðmynd Kristjáns Guðjónssonar fer vel í þessum einleik og sviðsmynd Messíönu Tómasardóttur, eins og sagan sjálf, segir miklu meira en það sem við sjáum við fyrstu sýn.

Það kann að vera undarlegt að sýna verk sem heitir Aðventa um páska en Benedikt segir í upphafi sögunnar að hann hafi smám saman komist að því að „allt hans líf væri orðið ein aðventa“, eins konar bið „eftir einhverju betra, eftirvænting, undirbúningi – þeirri ákvörðun að láta gott af sér leiða“. Því miður rímar það ekki við ákvörðun menntamálaráðuneytisins að veita Möguleikhúsinu ekki styrk í ár. Kannski ættu menn hjá úthlutunarnefnd ráðuneytisins að lesa sögu Gunnars aftur, og enn betra væri að fara á þessa sýningu og endurskoða ákvörðun sína.

Martin Stephan Regal


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband