31.3.2008 | 13:59
Rangfærslur í leikdómi um Aðventu
Í leikdómi Páls Baldvins Baldvinssonar í Fréttablaðinu 31. mars um sýningu Möguleikhússins á Aðventu segir að bæði ríki og borg hafi látið af stuðningi til starfsemi leikhússins á yfirstandandi ári. Hér er ekki rétt farið með. Hið rétta er að við úthlutun Menntamálaráðuneytis á fé til sjálfstæðra leikhúsa sem fram fer samkvæmt tillögum Leiklistarráðs hlaut Möguleikhúsið í fyrsta sinn í fjórtán ár engan stuðning þaðan, hvorki í formi starfslauna né beins fjárstuðnings. Reykjavíkurborg styrkir Möguleikhúsið hinsvegar um 3 milljónir króna í ár og er það samkvæmt þriggja ára starfssamningi. Sá samningur var endurnýjaður fyrir rúmu ári og lækkaði þá um 25% frá því sem áður var. Menntamálaráðuneytið hefur nú veitt Möguleikhúsinu 2 millj. króna til reksturs leikhússins á yfirstandandi ári. Samtals hefur Möguleikhúsið því hlotið 5 milljónir króna til rekstur og uppsetninga leikverka í ár. Það er ljóst að þessi stuðningur dugir hvergi nærri fyrir óbreyttum áframhaldandi rekstri og stefnir því allt í að Möguleikhúsið flytji úr húsnæði því sem það hefur yfir að ráða við Hlemm síðar á árinu og dragi verulega úr allri starfsemi.
Þá segir á öðrum stað í dómnum Í inngangsorðum verksins er okkur sagt fyrirmunað að skilja fjárgæslu á vetrum. Okkar tímar skynji ekki þá miklu vá sem vofði yfir fjármönnum í vetrarveðrum. Þessar fullyrðingar er hvergi að finna í texta sýningarinnar og eru því alfarið túlkun gagnrýnandans á verkinu.
Flokkur: Menning og listir | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.