Möguleikhúsið frumsýnir Aðventu

„Þegar hátíð fer í hönd, búa menn sig undir hana, hver á sína vísu.“

Pétur Eggerz í AðventuÞannig hefst saga Gunnars Gunnarssonar, Aðventa. Bókin kom út árið 1939 og er hún sú saga Gunnars sem sem víðast og oftast hefur verið gefin út. Hún kom fyrst út á dönsku, en síðar þýddi höfundurinn hana sjálfur á íslensku.

Sunnudaginn 16. mars kl. 20:00 frumsýnir Möguleikhúsið við Hlemm leikgerð Öldu Arnardóttur á þessari kunnu sögu Gunnars.
Hér er sagt frá svaðilförum vinnumannsins Benedikts sem fer til fjalla í vetraríki aðventunnar að leita þess fjár sem eftir varð er smalað var um haustið. Það er köllun hans að koma þessum eftirlegukindum til byggða fyrir hátíðirnar. Söguna byggir höfundur á frásögnum af frægum svaðilförum Benedikts Sigurjónssonar, öðru nafni Fjalla-Bensa, á Mýrdalsöræfum og einkum þó eftirleitarferð sem hann fór í desember 1925. Þetta er klassísk saga um náungakærleika og fórnfýsi í vetrarhörkum íslenskra öræfa.
Í sýningunni er unnið eftir aðferðum frásagnarleikhússins þar sem einn leikari. Pétur Eggerz, stendur á sviðinu, flytur söguna og bregður sér jafnframt í hlutverk helstu persóna. Þá skipar hljóðmynd stóran sess í sýningunni og á þátt í að skapa heim sögunnar, en höfundur hljóðmyndarinnar er Kristján Guðjónsson sem hér vinnur sitt fyrsta verkefni með Möguleikhúsinu. Leikmynd og búninga hannar Messíana Tómasdóttir en Bjarni Ingvarsson annast lýsingu.

Sýningin er ætluð áhorfendum frá 13 ára aldri og tekur 60 mínútur í flutningi. Auk þess að vera sýnd í Möguleikhúsinu við Hlemm er sýningin á faraldasfæti og geta því skólar sem og aðrir fengið hana í heimsókn til sín.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Toj toj á sunnudag - einsog við segjum í leikhúsinu

Elfar Logi Hannesson (IP-tala skráð) 14.3.2008 kl. 16:26

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband