Menntamálaráðuneytið hafnar Möguleikhúsinu

Mynd_af_TKG_i_lit_20686-2-106Við úthlutun styrkja Menntamálaráðuneytisins til leiklistarstarfsemi og úthlutun listamannalauna hefur komið í ljós að í ár hlýtur Möguleikhúsið, í fyrsta skipti í fjórtán ár, engan stuðning til áframhaldandi starfsemi. Áður hefur Möguleikhúsið fengið synjum við umsóknum sínum til Barnamenningarsjóðs, Menningarsjóðs félagsheimila og Fjárlaganefndar. Eini opinberi stuðningurinn sem leikhúsið hefur fastan í hendi þetta árið er starfssamningur við Reykjavíkurborg, en þar fær það við 3 milljónir króna í ár. Samningurinn var endurnýjaður á síðasta ári og þá skorinn niður um 25% frá því sem fyrir var. Við þessar aðstæður er ekki unnt að halda starfsemi leikhússins áfram.  Við blasir að ef ekki fæst meiri stuðningur verður að segja upp húsnæðinu við Hlemm og hætta að hafa starfsmenn á launum. Þar með er því starfi sem byggt hefur verið upp á undanförnum 18 árum stefnt í voða og næsta víst að leikhúsið mun hætta starfsemi áður en langt um líður. Möguleikhúsið hefur starfað samfleytt frá árinu 1990 og á þeim tíma frumsýnt 30 leiksýningar fyrir börn og unglinga auk þess að standa fyrir margvíslegri annarri starfsemi, t.d. verið með leikhúsnámskeið fyrir börn. Árlega sýnir leikhúsið fyrir tíu- til tuttuguþúsund áhorfendur um land allt.Frá árinu 1994 hefur Möguleikhúsið hlotið stuðning árlega frá Menntamálaráðuneytinu í formi starfslauna og/eða beinna fjárveitinga. Þetta hefur orðið til þess að unnt hefur verið að halda uppi samfelldri starfsemi í leikhúsinu og þeir sem að því standa hafa getað helgað því krafta sína.Í fjórtán ár hefur leikhúsið haft aðsetur við Hlemm þar sem það hefur yfir að ráða sal fyrir rúmlega 100 áhorfendur, sem er fyrsta leikhúsið á landinu sem sérstaklega var ætlað börnum. Á síðasta ári hlaut Möguleikhúsið fjárveitingu frá Fjárlaganefnd Alþingis, að upphæð 2 millj. króna, til viðhalds og endurbóta á húsnæðinu. Hætti leikhúsið starfsemi hefur þeim peningum verið kastað á glæ.

 Það er því deginum ljósara að á komandi vikum verða aðstandendur Möguleikhússins að róa lífróður til að bjarga leikhúsinu og mun ekki veita af aðstoð vina og velunnara.

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Ari Guðmar Hallgrímsson

Mér finnst að þeir sjóðir sem hafa hafnað styrkveitingu til Möguleikhússins ættu að birta skrá yfir styrkveitingar sínar og rökstyðja höfnunina á styrkveitingu. Fjárlaganefnd alþingis ætti að gera slíkt hið sama.

Síðan og ekki síst ætti Menntamálaráðherra að sjá sóma sinn í þessu máli og endurskoða þessa ákvörðun. Eða birta ítarlega greinargerð annars fyrir þessum gjörningi

Kveðja

Ari Guðmar Hallgrímsson, 2.2.2008 kl. 10:42

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband