Hugleikur í Möguleikhúsinu

ÚtsýniLeikfélagið Hugleikur frumsýnir leikrtið Útsýni eftir Júlíu Hannam í Möguleikhúsinu við Hlemm laugardaginn 19. janúar kl. 20:00.

Um er að ræða nýtt íslenskt leikverk sem er fyrsta leikrit höfundar í fullri lengd, en Júlía hefur skrifað sjö einþáttunga sem settir hafa verið á svið hjá Hugleik. Þeirra á meðal er Í öruggum heimi sem valin var besta sýningin á  stuttverkahátíðinni Margt smátt í Borgarleikhúsinu vorið 2006 af dómnefnd sem skipuð var Þorvaldi Þorsteinssyni og Þorsteini Bachmann.

Útsýni fjallar um samskipti tveggja hjóna, þar sem eiginmennirnir eru æskuvinir. Verkið er í tveimur þáttum og gerast þeir á heimili hjónanna Björns og Svövu með um árs millibili, en í báðum þáttum taka þau á móti vinahjónum sínum, Hlyni og Elínu. Í verkinu er fylgst með þeim umskiptum sem verða í lífi persónanna fjögurra, bæði vegna breytinga á félagslegri stöðu sem og í innbyrðis samskiptum. Þannig fjallar verkið um þanþol sannrar vináttu, traustið sem ríkir milli einstaklinga í hjónabandi, öfundsýki og sjálfsvirðingu.

Leikstjórn Útsýnis er í höndum gamalkunnra Hugleikara, þeirra Rúnars Lund og Silju Bjarkar Huldudóttur, en þau hafa bæði starfað með leikfélaginu í yfir tuttugu ár. Hlutverkin fjögur skipa Elísabet Indra Ragnarsdóttir, Guðrún Eysteinsdóttir, Sigurður H. Pálsson og Þráinn Sigvaldason. Höfundur frumsaminnar tónlistar í sýningunni er Gunnar Ben.

Hugleikur var stofnaður árið 1984 og hefur um árabil verið einn virkasti áhugaleikhópur landsins. Hann hefur þá sérstöðu meðal íslenskra leikfélaga að leikverkin eru öll samin af félagsmönnum. Umfjöllunarefni leikritanna eru alfarið sprottin úr íslensku þjóðlífi. Oft á tíðum hefur verið leitað fanga í þjóðsagnararfinum, í sögu þjóðarinnar og gullaldarbókmenntunum, en viðfangsefni samtímans hafa á umliðnum misserum fengið aukið vægi. Söngur og tónlist hafa jafnan sett svip sinn á sýningar hópsins.

Hugleikur hlaut sérstaka viðurkenningu menntamálaráðuneytisins á degi íslenskrar tungu 16. nóvember árið 2006 fyrir stuðning við íslenska tungu.Það sama ár gerði Reykjavíkurborg þriggja ára samstarfssamning við leikfélagið.

Útsýni er klukkustundarlöng sýning og leikin án hlés.

Nánari upplýsingar um sýninguna er að finna á heimasíðu Hugleiks http://www.hugleikur.is/


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband