18.12.2007 | 10:00
Möguleikhúsið sýnir 200. sýningu á „Hvar er Stekkjarstaur?“
200. sýning á jólaleikriti Möguleikhússins Hvar er Stekkjarstaur? fer fram í leikskólanum Núpi í Kópavogi í dag. Leikritið, sem er eftir Pétur Eggerz, var fyrst sýnt fyrir jólin 1996, en hefur síðan verið á dagskrá Möguleikhússins með reglulegu millibili.
Í leikritinu segir frá því þegar það gerist eitt sinn að jólasveinninn Stekkjarstaur skilar sér ekki til byggða á tilsettum tíma þann 12. desember. Þegar aðalpersóna leikritsins, Halla ,fer að athuga hvernig á því standi kemst hún að því að jólasveinunum er orðið svo illa við allan ysinn og þysinn í mannheimum að þeir hafa ákveðið að hætta að fara til byggða um jólin. Spurningin er hvort Höllu takist að fá þá til að skipta um skoðun.
Tveir leikarar taka þátt í sýningunni, en það eru annarsvegar þau Alda Arnardóttir og Pétur Eggerz og hinsvegar Bjarni Ingvarsson og Aino Freyja Järvelä sem skiptast á að leika hlutverkin. Leikstjóri er Pétur Eggerz en leikmynd og búningar voru unnin í samvinnu leikhópsins og Helgu Rúnar Pálsdóttur.
Sýningum á Hvar er Stekkjarstaur? verður fram haldið á leik- og grunnskólum til jóla, en þess má geta að á annan í jólum kl. 14:00 verður verkið sýnt við fjölskyldumessu í Fella- og Hólakirkju.
Flokkur: Menning og listir | Facebook
Athugasemdir
Vá það er bara ekkert annað til hamingju með 200 sýningar ég vona að ég nái að sjá stykkið einhvern daginn. Jólakveðja Jólasveinar Grýlusynir á ísó
Elfar Logi Hannesson (IP-tala skráð) 18.12.2007 kl. 12:05
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.