3.12.2007 | 20:56
Sýningar hafnar á Hvar er Stekkjarstaur?
Fyrstu sýningarnar á jólaleikritinu Hvar er Stekkjarstaur? eftir Pétur Eggerz fyrir þessi jólin fóru fram í dag, 3. desember. Sýnt var í leikskólunum Kópahvoli og Austurborg, sem báðir eru fastakúnnar á sýningar leikhússins. Það voru Alda Arnardóttir og Pétur Eggerz sem fóru með hlutverkin í sýningunni í dag, en þau munu skiptast á við Bjarna Ingvarsson og Aino Freyju Järvelä að leika sýninguna til jóla. Búið er að bóka 23 sýningar á verkinu og enn eru fleiri að bætast við. Leikritið var fyrst sýnt fyrir jólin 1996 en þá voru það Bjarni Ingvarsson og Alda Arnardóttir sem fóru með hlutverkin. Verkið var síðast leikið fyrir jólin 2003. Í tilefni af enduruppsetningu verksins nú var Helga Rún Pálsdóttir leikmynda- og búningahönnuður fengin til að endurhanna að miklu leyti allt útlit sýningarinnar. Flestar þær sýningar sem bókaðar eru á Hvar er Stekkjarstaur? eru í leik- og grunnskólum, en sunnudaginn 9. desembar verður sýning í Möguleikhúsinu við Hlemm sem opin er almenningi.
Flokkur: Menning og listir | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.