Færsluflokkur: Bloggar
12.9.2007 | 20:09
Möguleikhúsið býður til leikhúsveislu fjölskyldunnar
Ekki verður unnt að taka frá miða og því um að gera að mæta tímanlega.
Möguleikhúsið hefur starfað frá árinu 1990, en fyrsta leiksýning í nafni þess fór fram í miðbæ Reykjavíkur 17. júní það ár. Frá upphafi hefur leikhúsið einbeitt sér að ferðasýningum fyrir börn og unglinga sem heimsótt hafa grunn- og leikskóla um land allt. Í vetur býður Möguleikhúsið upp á 9 mismunandi sýningar og það eru 6 þeirra sem sýndar verða á sunnudaginn.
Dagskráin hefst kl. 11 um morguninn með sýningu á Langafa prakkara, en það er leikrit byggt á hinum vinsælu sögum Sigrúnar Eldjárn. Það eru þau Bjarni Ingvarsson og Aino Freyja Järvelä sem fara með hlutverkin í leiknum.
Sýningin er ætluð börnum á aldrinum 3ja til 10 ára.
Klukkan 13 er sýning á Höll ævintýranna, sem er einleikur Bjarna Ingvarssonar. Þar eru sögur og ævintýri færð í búning á einfaldan hátt, geiturnar þrjár títla yfir brúna þar sem tröllið liggur í leyni og haltur hani flýgur á vængjum ímyndunaraflsins.
Sýningin er ætluð áhorfendum á aldrinum 2ja til 8 ára.
Þriðja sýning dagsins er Landið vifra, sem byggir á barnaljóðum Þórarins Eldjárns og hefst hún kl. 14:00. Hér spretta persónur þessa einstæða ljóðaheims fram bráðlifandi, m.a. Guðmundur á Mýrum sem borðar bækur, losarann sem allt vill losa og karlinn með orðasugu í eyra.
Sýningin er ætluð börnum á aldrinum 2ja til 10 ára.
Fornkappinn Gísli Súrsson stígur á svið kl. 15:00. Hér er um að ræða gestasýningu Kómedíuleikhússins frá Ísafirði og er það Elfar Logi Hannesson sem fer með hlutverk kappans.
Sýningin er mætluð áhorfendum frá 13 ára aldri.
Önnur gestasýning Kómedíuleikhússins hefst kl. 16:30, en það er hinn einleikni gamanleikur Skrímsli. Þar bregður Elfar Logi sér í hlutverk skrímslafræðingsins Jónatans sem upplýsir áhorfendur um íslensk sæskrímsli.
Sýningin er ætluð áhorfendum frá 13 ára aldri.
Þess má geta að sýningar Kómedíuleikhússins verða báðar í boði fyrir skóla á höfuðborgarsvæðinu síðar í vetur í samvinnu við Möguleikhúsið.
Síðastur á svið kl. 18:00 er Sæmundur fróði. Hér er á ferðinni nýjasta sýning Möguleikhússins þar sem segir frá samskiptum Sæmundar fróða og kölska. Sæmundur sleppur með naumindum frá Kölska í Svartskóla en Kölski fylgir honum til Íslands og gerir honum lífið leitt.
Sýningin er ætluð áhorfendum frá 8 ára aldri
Bloggar | Breytt s.d. kl. 20:14 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)